Þvætti á bitcoin fyrir Ríki íslams

AFP

Tæplega þrítug kona í New York hefur verið ákærð fyrir peningaþvætti fyrir vígasamtökin Ríki íslams. Um er að ræða þvætti á bitcoin og annarri rafmynt, segir í frétt BBC.

Zoobia Shahnaz, 27 ára, er ákærð fyrir fjársvik, samsæri um peningaþvætti og peningaþvætti. Hún situr í gæsluvarðhaldi og verður ekki látin laus gegn tryggingu. Shahnaz er fædd í Pakistan og starfar sem sérfræðingur á rannsóknarstofu í Bandaríkjunum. 

Að sögn saksóknara tók hún lán með sviksamlegum hætti fyrir 85 þúsund bandaríkjadali, tæpar níu milljónir króna, til þess að kaupa bitcoin á netinu. Bitcoin er rafræn mynt sem ekki er hægt að nota fyrir hefðbundna vöru og þjónustu. Verðgildi bitcoin hefur sveiflast mjög og er í hæstu hæðum um þessar mundir.

Hér er að finna útskýring á hvað bitcoin er á Vísindavef Háskóla Íslands

Glæpahópar nota bitcoin til peningaþvættis og eru bresk yfirvöld að þrýsta á að settar verði hertari reglur um notkun gjaldmiðilsins.

Shahnaz, sem býr í Brentwood á Long Island, starfaði sem sérfræðingur á rannsóknarstofu sjúkrahúss á Manhattan þangað til í júní. Að sögn saksóknara varð hún sér úti um pakistanskt vegabréf í júlí og bókaði flug til Pakistan með millilendingu í Istanbul. Ætlun hennar var að fara til Sýrlands þaðan.

Hún var handtekin á John F Kennedy flugvellinum og reyndist hún vera með 9500 bandaríkjadali á sér í reiðufé, eða rétt undir þeim mörkum sem einstaklingi er heimilt að taka með sér löglega úr landi. Við leit í snjalltækjum hennar kom í ljós að hún hafði ítrekað verið á síðum tengdum Ríki íslams. 

Shahnaz á yfir höfðu sér allt að 20 ára fangelsi fyrir hvert brot varðandi peningaþvætti og 30 ára dóm fyrir fjársvik gagnvart banka. 

Lögmaður hennar, Steve Zissou, segir að hún hafi verið að senda peninga milli landa til þess eins að hjálpa sýrlenskum flóttamönnum. „Hún var harðákveðin í að gera sitt til þess að lina þjáningar sýrlenskra flóttamanna eftir að hafa séð hvernig þeir hafa það. Allt sem hún gerði var gert í þeim tilgangi, að lina þjáningar þeirra,“ segir Zissou.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert