11 lögreglumenn féllu í árás talibana

Afganska öryggislögreglan rannsakar vettvang bílasprengju sem varð konu að bana …
Afganska öryggislögreglan rannsakar vettvang bílasprengju sem varð konu að bana í Kandahar í morgun. 11 lögreglumenn fórust í nágrannahéraðinu Helmand. AFP

11 afganskir lögreglumenn hið minnsta létust í árás talibana á tvær eftirlitsstöðvar í suðurhluta Helmands héraðs í Afganistan í dag.

Töluvert hefur verið um árásir talibana á  afganska lögreglu og hersveitir undanfarið að sögn AFP-fréttastofunnar.

Árásin átti sér stað snemma morguns í Qalai Sang hverfinu á Lashkar Gah, höfuðborg héraðsins.

„Lögreglumenn okkar svöruðu fyrir sig, en því miður létust ellefu lögreglumenn píslavættisdauða og tveir eru særðir,“ sagði héraðsstjórinn Hayatullah Hayat við AFP. Bætti hann við að árásarmennirnir hefðu flúið af vettvangi, en héraðslögreglustjórinn Ghafar Safi sagði 15 vígamenn talibana hafa fallið í átökunum.

Afganskar lögreglu- og hersveitir hafa orðið fyrir miklu mannfalli, auk þess sem töluvert hefur verið um liðhlaupa og svo nefnda „draugahermenn“ sem bara koma fram á launaseðlum, eftir að hersveitir NATO hættu sókn sinni í héraðinu í desember 2014.

Þá lést ein kona í nágrannahéraðinu Kandahar í dag og fjórir almennir borgarar til viðbótar særðust er bílasprengja sem beint var að hersveitum NATO sprakk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert