Morðdeild lögreglunnar í Toronto hefur tekið yfir rannsóknina á dularfullu andláti milljarðamæringsins Barry Sherman og Honey konu hans. Er andlát hjónanna, sem fundust látin á heimili sínu í Toronto á föstudag, nú rannsakað sem „grunsamlegt“.
Áður höfðu kanadískir fjölmiðlar haft eftir heimildamönnum innan lögreglunnar að talið væri að Sherman, sem var einn af ríkustu mönnum Kanada, hefði myrt konu sína og tekið að því loknu eigið líf. Börn hjónanna sendu í gær frá sér yfirlýsingu þar sem þau drógu slíkar skýringar í efa.
BBC segir krufningu á líkum þeirra hjóna hafa leitt í ljós að þau hafi bæði dáið vegna þess að þrengt hafi verið að öndunarvegi þeirra.
Í yfirlýsingu sem lögreglan sendi frá sér á sunnudagkvöld, var niðurstaða krufningar staðfest og tilkynnt að morðdeild lögreglunnar í Toronto hefði tekið yfir rannsókn málsins. Áður hafði lögregla greint frá því að ekki stæði yfir leit að neinum sem grunaður væri um að hafa myrt þau.
„Foreldrar okkar deildu lífsgleði og trúfestu í garð fjölskyldu sinnar og samfélagsins, sem er í fullu ósamræmi við þennan óheppilega orðróm sem fjölmiðar hafa deilt varðandi dauða þeirra,“ sagði í yfirlýsingu sem fjögur börn hjónanna sendu frá sér í gær.
„Við erum í áfalli og teljum óábyrgt að lögreglumenn hafi deilt með fjölmiðlum tilgátu sem hvorki fjölskylda, vinir né kollegar þeirra telja vera sanna.“
Kölluðu börnin því næst eftir ítarlegri og hlutlausri glæparannsókn og að fjölmiðlar hætti að greina frá dánarorsök þar til rannsókninni sé lokið.
Fasteignasali Sherman-hjónanna fann lík þeirra, en hann hafði verið að aðstoða þau við að selja hús sitt. Engin merki voru um innbrot.
Sherman var stofnandi og stjórnarformaður lyfjarisans Apotex, sem selur samheitalyf víða um heim. Hann var einn af ríkustu mönnum Kanada og þekktur fyrir góðgerðarstarf sitt.
Sherman var efnilegur námsmaður og hóf störf í lyfjaiðnaðinum í gegnum fyrirtæki frænda síns Empire Laboratories meðfram háskólanámi. Hann keypti svo fyrirtækið þegar að frændi hans dó og stofnaði Apotex, sem gerði hann að milljarðamæringi og sem rúmlega 1.000 manns starfa hjá í dag.
Það komu þó upp lagadeilur innan fjölskyldunnar og fullyrtu börn frænda hans að hann hefði svindlað á þeim og kröfðust þau þess að fá hlut í Apotex. Dómari vísaði þeirri kröfu frá fyrr á þessu ári.
Sherman sætti einnig rannsókn vegna grunsemda um að hann hefði haldið óviðeigandi fjáröflunarboð fyrir forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, áður en hann tók við embætti. Trudeau var einn fjölmargra sem vottaði fjölskyldunni samúð sína í gær og sagði hann á Twitter alla hafa verið snortna af hugsjónum og anda Sherman hjónanna.