Borgaryfirvöld í Charlottesville í Virginíu hafa hafnað beiðni fimm hópa um að fá að mótmæla í borginni á næsta ári. Mótmæli rasista í Charlottesville fyrr á árinu enduðu með dauða ungrar konu. Hópunum er hafnað um leyfi til að mótmæla á þeim rökum að slíkt myndi skapa almannahættu og væri ekki innan þeirra marka sem hægt væri að sinna af lögreglu.
Hópar sem hugðust mótmæla rasistunum fengu ekki heldur leyfi borgaryfirvalda. Í ágúst kom til átaka í borginni í kjölfar þess að fjölmennir hópar rasista, m.a. nýnasistar og Ku Klux Klan, söfnuðust saman í borginni og mótmæltu því að styttur af hershöfðingjum suðurríkjaherja væru teknar niður. Til þessarar samkomu mættu einnig hópar fólks sem mótmæltu rasistunum sem voru margir hverjir vopnaðir byssum og varðir plastskjöldum.
Dagblaðið The Daily Progress í Charlottesville hefur birt svarbréfin sem borgaryfirvöld sendu hópunum. Í færslu hægri öfgamannsins Jason Kessler, sem skipulagði samstöðu rasista í ágúst, á Twitter segir að stjórn kommúnista í Charlottesville hafi hafnað umsókn hans um að endurtaka mótmælin. Hann heitir því að höfða dómsmál vegna þessarar ákvörðunar strax í byrjun næsta árs. Í myndskeiði sem hann birti á Twitter segir hann að borgaryfirvöld í Charlottesville heimili vinstrisinnuðum hópum að safnast saman en ekki hægrisinnuðum.
Hið rétta er hins vegar að hópum sem ætluðu að mótmæla rasistunum var einnig neitað um leyfi. Meðal þeirra sem fengu synjun er Walter Heincke, prófessor við Háskólann í Virginíu og Bob Fenwick, borgarfulltrúi sem studdi þá tillögu fyrr á þessu ári að styttan af hershöfðingjanum Robert E. Lee yrði fjarlægð.
Í ágúst í fyrra söfnuðust hundruð rasista saman í smáborginni Charlottesville. Mótmælin höfðu verið boðuð þann 12. ágúst en kvöldið áður gekk hópurinn með logandi kyndla á lofti að Háskólanum í Virginíu og hrópuðu níðyrði um gyðinga og aðra hópa. „Gyðingar munu ekki koma í okkar stað!“ var meðal þess sem þeir hrópuðu einum rómi.
Daginn eftir kom svo til átaka sem enduðu með því að einn úr hópi rasistanna bakkaði bíl sinnum inn í mannfjöldann með þeim afleiðingum að 32 ára kona lést.
Kessler er hins vegar harðákveðinn í því að „sanna sitt mál“ en hann lítur á sig og sína bandamenn sem fórnarlömb í átökunum í ágúst. Í umsókn sinni um samkomuna á næsta ári segir hann að lögreglan þurfi aðeins að halda andstæðum fylkingum aðskildum til að koma í veg fyrir blóðbað. Borgaryfirvöld segja slíkt ekki gerlegt. „Charlottesville getur ekki skoruð úr um hvaða fylkingum einstaklingar tilheyra,“ sagði m.a. í svarbréfinu.
„Mótmælin munu samt sem áður fara fram í Lee-garðinum í Charlottesville 11.-12. ágúst 2018!“ skrifar hann á Twitter.