Réttarhöldum yfir Abdeslam frestað

Sven Mary lögmaður Salah Abdeslalm.
Sven Mary lögmaður Salah Abdeslalm. AFP

Réttarhöldum yfir Salah Abdeslam, sem er sá eini af árásarmönnum sem frömdu hryðjuverk í París í nóvember 2015, hefur verið frestað þangað til í febrúar en réttarhöldin áttu að hefjast í Brussel í vikunni.

Um er að ræða skotbardaga sem leiddi til handtöku Abdeslam í Belgíu í kjölfar árásarinnar í París þar sem 130 manns létust.

Réttarhöldunum var frestað til 5. febrúar að beiðni lögmanns Abdeslam, Sven Mary, en hann er sakaður um tilraun til manndráps í skotbardaganum við lögreglu. Auk þess er hann ákærður fyrir ólöglegan vopnaburð ofl.

Abdeslam, sem er 28 ára fæddur í Brussel er ættaður frá Marokkó, hefur setið í fangelsi skammt fyrir utan París frá því í apríl í fyrra. Fylgst er með honum með öryggismyndavélum allan sólarhringinn en hann hefur neitað að veita aðstoð við frönsk yfirvöld varðandi hryðjuverkið í París. Þess vegna kom mjög á óvart þegar hann lýsti sig reiðubúinn til þess að mæta við réttarhöldin í Brussel.

AFP
Salah Abdeslam
Salah Abdeslam AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert