Vélhjólasamtökin Bandidos hafa verið bönnuð í Hollandi af hollenskum dómstól og er samtökunum gert að loka öllum deildum sínum í landinu. Bannið er sett á grundvelli almannahagsmuna.
Í niðurstöðu héraðsdóms Utrecht segir að Bandidos-samtökin telji sjálf að þau standi utan við lög og slagorð þeirra innihalda ofbeldisfull skipaboð. Menning samtakanna sé samofin ofbeldi og hvatt er til alvarlegs ofbeldis og er þar vísað í slagorðið: „Gerið ekki ráð fyrir neinni miskunn,“ sem félagar fengu sent í kjölfar blóðugs bardaga. „Því er nauðsynlegt að banna samtökin með hafsmuni almennings í huga.“
Saksóknarar höfðuðu mál gegn Bandidos í tengslum við eiturlyfja- og vopnasmygl sem og vændi. Bandidos samtökin voru stofnuð í Bandaríkjunum árið 1966 en fyrsta deild þeirra hóf starfsemi í Hollandi fyrir þremur árum í bænum Sittard. Í dag eru Bandidos starfandi í Alkmaar, Utrecht og Nijmegen.
Í nóvember 2015 var fjórum meðlimum Bandidos vísað úr landi á Íslandi. Þeim var vísað frá landi með skírskotun til allsherjarreglu og almannaöryggis en frávísunin var í höndum Útlendingastofnunar í samræmi við útlendingalög nr. 96 frá árinu 2002.