Skattafrumvarp Trumps orðið að lögum

Donald Trump Bandaríkjaforseti staðfesti í dag ný skattalög sem báðar deildir þingsins samþykktu í fyrradag.

Í lögunum má finna mestu breytingar sem orðið hafa á skattakerfinu í Bandaríkjunum í þrjá áratugi. Meðal helstu breytinga má nefna að skatt­ar á stórfyr­ir­tæki lækka úr 35% í 20% og þá mun hæsta þrep tekju­skatts lækka úr 39,6% í 37%.

Afgreiðsla skattalaganna er álitinn fyrsti mikilvægi pólitíski sigur Trumps í embætti. Ekki þótti víst hvort Trump myndi undirrita lögin fyrir jól.

Frétt mbl.is: Trump sigurreifur í Hvíta húsinu

Trump sagði í samtali við blaðamenn á skrifstofu sinni í dag að hann hefði fylgst með fréttum í morgun þar sem helsta umræðuefnið hefði verið hvort hann myndi standa við loforð sitt um að undirrita lögin fyrir jól.

„Og ég hringdi niður eftir og sagði: Gerið allt klárt, við þurfum að undirrita þetta núna,“ segir Trump.

Staðfesting laganna verður líklega síðasta embættisverk Trumps fyrir jól, sem hann mun eyða í Mar-a-Lago, setri sínu á Flórída.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, undirritar nýju skattalögin á skrifstofu sinni …
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, undirritar nýju skattalögin á skrifstofu sinni í Hvíta húsinu í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert