Bannað að bjóða sig fram gegn Pútín

Alexei Navalny fær ekki að bjóða sig fram til forseta. …
Alexei Navalny fær ekki að bjóða sig fram til forseta. Hann hvetur rússnesku þjóðina til að sniðganga kosningarnar á næsta ári. AFP

Alexei Navalny, helsti pólitíski andstæðingur Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, hefur hvatt Rússa til að sniðganga forsetakosningarnar í landinu árið 2018 í kjölfar þess að yfirkjörnefnd landsins komst að þeirri niðurstöðu að Navalny mætti ekki bjóða sig fram í kosningunum.

„Við lýsum yfir verkfalli kjósenda. Við ætlum að fá alla til að sniðganga þessar kosningar. Við munum ekki viðurkenna úrslit kosninganna,“ sagði Navalny í samtali við fjölmiðla eftir að kjörnefndin upplýsti um niðurstöðu sína.

Allir 12 fulltrúar kjörnefndarinnar greiddu atkvæði gegn því að Navalny fengi að bjóða sig fram en ástæðuna má rekja til fimm ára skilorðsbundins dóms sem hann hafði hlotið. Í frétt AFP um málið segir að glæpurinn sé talinn alvarlegur og komi þess vegna í veg fyrir forsetaframboð.

Navalny hefur á undanförnum mánuðum rekið kosningabaráttu í Rússlandi og verið talinn eini frambjóðandi landsins sem geti ögrað Pútín. Hann er 41 árs að aldri og hefur m.a. uppljóstrað um spillingarmál í heimalandinu.

Navalny var fyrst dæmdur árið 2013 fyrir fjárdrátt en honum var gefið að sök að hafa svikið 270 þúsund Bandaríkjadali af hinu opinbera. Mannréttindadómstóll Evrópu ómerkti dóminn og sagði hann óréttlátan. Hæstiréttur Rússlands fyrirskipaði þá að málið yrði endurflutt og var Navalny dæmdur aftur. Dómurinn var jafnlangur og nánast eins upp á bókstaf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert