Lögregla beitir táragasi gegn mótmælendum

Þúsundir mótmælenda hafa safnast saman í höfðuborginni Lima, til að …
Þúsundir mótmælenda hafa safnast saman í höfðuborginni Lima, til að mótmæla þeirri ákvðrðun forseta Perú, Pedro Pablo Kuczynskis, að náða fyrrverandi forsetann Alberto Fujimori af mannúðarástæðum. AFP

Lögregla í Perú hefur beitt táragasi gegn þúsundum mótmælenda sem hafa lýst yfir óánægju sinni með þá ákvörðun yfirvalda í landinu að náða Alberto Fujimori, fyrrverandi forseta landsins.

„Nei við náðuninni“ hrópaði mannfjöldinn í höfuðborginni Lima á öðrum degi mótmælanna, en greint var frá um jólin að núverandi forseti landsins, Pedro Pablo Kuczynski, hefði af heilsufarsástæðum náðað Fujimori, sem setið hefur í fangelsi vegna 25 ára dóms sem hann hlaut fyrir mannréttindabrot og spillingu.

Kuczynski sagðist skilja reiðina sem ákvörðun sín hefði vakið, en hann gæti ekki „látið Alberto Fujimori deyja í fangelsi“. Forsetinn fyrrverandi þjáist af lágum blóðþrýstingi og óreglulegum hjartslætti og var í síðustu viku fluttur úr fangelsinu og á sjúkrahús.

Kuczynski hafnar því að náðun hans á Fujimori tengist samningi sem hann hafi gert til að forðast að vera ákærður sjálfur fyrir að hafa tekið við ólöglegum greiðslum frá brasilíska verktakafyrirtækinu Odebrecht.

Tveir þingmenn í flokki Kuczynskis, þeir Vicente Zeballos og Alberto de Belaunde, hafa sagt af sér þingmennsku í mótmælaskyni.

Stuðningsmenn Fujimoris, sem var forseti Perú frá 1990-2000, hafa hins vegar safnast saman fyrir utan sjúkrahúsið þar sem hann fær aðhlynningu og fagna því að hann hafi verið látinn laus.

Stuðningsmenn Fujimoris lofa hann fyrir baráttu sína gegn uppreisnarmönnum maóista, en gagnrýnendur hans segja hann spilltan einræðisherra.

Kenji, dóttir Fujimoris, birti í gær af sér myndband á Twitter þar sem hún tilkynnti föður sínum á sjúkrabeðnum að hann hefði verið náðaður og óskaði honum um leið gleðilegra jóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka