Sex látnir í sjálfsmorðsárás í Nígeríu

Sjálfmorðsárásir eru tíðar í borginni Maiduguri í Nígeríu. Þessi mynd …
Sjálfmorðsárásir eru tíðar í borginni Maiduguri í Nígeríu. Þessi mynd er frá árás sem gerð var í október. AFP

Sex létust og að minnsta kosti 13 særðust alvarlega í sjálfsmorðsárás á markaði í norðurhluta Nígeríu í dag. Hryðjuverkasamtökin Boko Haram eru sökuð um árásina.

Árásarmaðurinn, sem þóttist vera kornsölumaður, sprengdi sig í loft upp á fjölsóttum markaði í Amarwa-þorpinu, sem er um 20 kílómetra frá borginni Maiduguri.

Boko Haram höfðu skipulagt svipaða árás á jóladag, en framkvæmd hennar mistókst.

Þeir sem særðust í árásinni voru fluttir á spítala í Maiduguri en hinir látnu hafa verið bornir til grafar í þorpinu.

Amarwa-þorpið hefur ótal oft verið skotmark Boko Haram á þeim átta árum sem átök hafa staðið yfir á svæðinu. Talið er að í heildina hafi 20 þúsund manns látið lífið og um 2,6 milljónir þurft að yfirgefa heimili sín vegna árása af hálfu hryðjuverkasamtakanna.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka