„Örugg svæði“ fyrir konur

Borgaryfirvöld í Berlín hafa gripið til ráðstafana sem eiga að …
Borgaryfirvöld í Berlín hafa gripið til ráðstafana sem eiga að tryggja betur öryggi kvenna í borginni um áramótin. AFP

Skipuleggjendur áramótaviðburða í Berlín munu nú í fyrsta skipti útbúa sérstök „örugg svæði“ fyrir konur.

Í frétt BBC um málið segir að þetta sé m.a. fyrirhugað í viðburði sem haldinn er við Brandenborgarhliðið. Til þessara aðgerða er gripið vegna vaxandi ótta við kynferðislegar árásir á þessum tímamótum.

Fjölmargar konur urðu fyrir árásum og voru rændar á nýársfagnaði í Köln fyrir tveimur árum. Hundruð kvenna tilkynntu slíkar árásir og sögðu gerendurna hafa unnið í hópum og verið af erlendum uppruna. 

Í kjölfar þeirra skelfilegu atburða magnaðist óþol gagnvart flóttamönnum í landinu en þangað flúði 1,1 milljón manna árið 2015, m.a. fólk sem var á flótta undan stríðinu í Sýrlandi og Írak.

Hundruð þúsunda manna munu safnast saman til að fagna nýju ári í Berlín líkt og hefð er fyrir ár hvert. Öryggiseftirlit verður hert til muna í ár. Þannig verður til dæmis bannað að fara með stóra bakpoka og áfengi inn á hátíðarsvæðið við Brandenborgarhliðið.

Konur sem hafa orðið fyrir árás eða finnst þær áreittar geta fengið stuðning inni á sérstöku afmörkuðu öruggu svæði, þar sem starfsmenn Rauða krossins í Þýskalandi verða að störfum. Þá hefur lögreglan í Berlín hvatt konur til að hafa ekki mikil verðmæti meðferðis og leita sér hjálpar ef þær óttast um öryggi sitt.

Borgaryfirvöld í Köln settu upp örugg svæði fyrir konur á áramótaviðburðum í borginni í fyrra. 

Í frétt BBC segir að ekki séu allir jafn ánægðir með þetta uppátæki. Gagnrýnendur segja að með þessu sé sjónum beint að fórnarlömbunum eða mögulegum fórnarlömbum í stað þess að taka á gerendunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert