Hörð mótmæli í Íran

Írönsk kona kreppir hnefann er lögreglan reynir að tvístra mótmælendum …
Írönsk kona kreppir hnefann er lögreglan reynir að tvístra mótmælendum við háskólann í Teheran með táragasi. AFP

Mótmæli héldu áfram í dag, þriðja daginn í röð, í helstu borgum Írans. Mótmælendur láta varnaðarorð ríkisstjórnarinnar sem vind um eyru þjóta, en innanríkisráðherra landsins hefur ráðlagt landsmönnum að forðast „ólöglegar samkomur“. Svo virðist sem átök hafi brotist út en tveir mótmælendur hafa særst í borginni Dorud í vesturhluta landsins. En þeir hlutu skotsár.

Þá hafa myndskeið verið birt sem sýna mótmælendur leggja eld að lögreglubifreiðum og þá hafa borist fréttir af því að gerðar hafi verið árásir á opinberar byggingar.

Að sögn fréttaritara BBC í Teheran, höfuðborg Íran, eru mótmælin þýðingarmikil enda ekki á hverjum degi sem þúsundir manna lýsa yfir andstöðu með ríkisstjórnina í klerkaveldinu Íran. 

Mótmælin hófust á fimmtudag í borginni Mashhad, þeirri næststærstu í landinu. Fólk fjölmennti á götur miðborgarinnar til að sýna reiði sína yfir háu verðlagi í landinu og var mótmælunum beint að forseta landsins, Hassan Rouhani. 52 voru handteknir þann dag.

Þau snúast þó síður en svo einungis um matvælaverð. Það sem sameinar mótmælendur er andstaða klerkaveldið og ákall um endurbætur á stjórnarfarinu. Fjöldi mótmælafunda hefur verið haldinn síðustu daga, en enn sem komið er eru þau fámenn. Að jafnaði eru á bilinu hundrað til nokkur þúsund manns á hverjum fundi. Á myndbandi sem deilt var á Twitter má sjá nemendur í Háskólanum í Teheran krefjast þess að forsetinn segi af sér.

Donald Trump forseti Bandaríkjanna nýtti samskiptamiðilinn til að greina afstöðu sinni. Hann sagði ljóst að íranskir borgarar væru komnir með nóg af spillingu stjórnarinnar og því gripið til friðsamra mótmæla. Hvatti hann stjórnvöld þar í landi til að virða mannréttindi og tjáningarfrelsi. Heimsbyggðin fylgdist með. 

Um er að ræða stærstu í landinu síðan 2009 er þúsundir landsmanna mótmæltu sigri Mahmoud Ahmadinejad sitjandi forseta í forsetakosningum í landinu. Þau mótmæli voru að lokum kæfð og lauk með handtöku 4000 manna auk þess sem samfélagsmiðillinn Twitter, sem mótmælendur höfðu nýtt til skipulagningar, var bannaður í landinu og er enn.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert