Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa opnað á ný fyrir beint símasamband við stjórnvöld í Suður-Kóreu en tvö ár eru síðan klippt var á þau samskipti að skipun einræðisherrans Kims Jong-un.
Stjórnvöld í S-Kóreu staðfesta að þau hafi um klukkan hálfsjö í morgun að íslenskum tíma fengið símtal úr norðri.
Þetta kemur í kjölfar þess að Kim Jong-un sagðist vilja hefja viðræður við stjórnvöld í Seoul og ætlaði sér að senda lið á vetrarólympíuleikana sem fram fara þar í landi í næsta mánuði.
Engar viðræður hafa átt sér stað á milli ríkjanna frá því í desember árið 2015. Þá lokuðu stjórnvöld í N-Kóreu fyrir þessa samskiptaleið.
Símtalið í morgun var víst stutt en svo virðist sem enn sé verið að athuga hvort símalínan virki.
Upplýsingafulltrúi forseta Suður-Kóreu segir þetta marka tímamót sem hafi mikla þýðingu.
Í frétt BBC er sagt frá því að samkvæmt suðurkóreskum yfirvöldum séu 33 beinar símalínur á milli stjórnvalda í ríkjunum tveimur. Opnað var fyrir þá línu sem notuð var í morgun árið 1971.