„Hetjan“ stal frá fórnarlömbunum

Chris Parker.
Chris Parker.

Heimilislaus maður hefur játað að hafa stolið veski og síma frá fórnarlömbum sprengjutilræðisins í tónleikahöllinni Manchester Arena í maí. Hann var ákærður fyrir að hafa stolið greiðslukorti af fórnarlambi árásarinnar í ágúst. 

Maðurinn, Chris Parker, var hylltur sem hetja á sínum tíma eftir að hafa greint frá því að hann hafi reynt að hugga mjög alvarlega særða stúlku eftir að sprengjan sprakk.

Í kjöl­farið var sett af stað söfn­un fyr­ir Par­ker á hóp­fjár­mögn­un­ar­síðunni GoFundMe, þar sem yfir 50 þúsund pund söfnuðust, eða yfir sjö millj­ón­ir króna. 

Við réttarhöldin í Manchester í dag játaði hann einnig fjársvik með því að hafa notað debetkort sem var í veskinu sem hann stal. Réttarhaldið átti að hefjast í gær en var frestað þar sem Parker mæti ekki. Hann fannst síðar um daginn þar sem hann faldi sig uppi á háalofti í Yorkshire og var hann handtekinn. Að sögn dómara verður dómurinn kveðinn upp síðar í mánuðinum og væntanlega verði um óskilorðsbundinn dóm að ræða.

22 létust og 59 slösuðust árásina í lok tónleika bandarísku söngkonunnar Ariönu Grande 22. maí. Árásarmaðurinn, Salman Abedi, 22 ára Manchester-búi, er talinn hafa valið staðinn sérstaklega með það í huga að valda sem mestum usla, þar sem Grande er vinsæl söngkona meðal ungs fólks. Uppselt var á tónleikana, en höllin tekur alls 21 þúsund manns í sæti. Um sjálfsvígsárás var að ræða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert