Leiddist biðin og fór út á væng

Farþegi Ryanair sem átti flug frá Malaga á Spáni til London á nýársdag varð svo þreyttur á að bíða um borð í vélinni eftir að tekið væri á loft að hann opnaði neyðarútgang, fór út á væng vélarinnar og kom sér fyrir þar. BBC greinir frá.

Fluginu hafði verið seinkað um klukkutíma og þegar farþegum hafði verið haldið um borð í vélinni í um hálftíma á flugvellinum virtist maðurinn fá nóg af biðinni.

Maðurinn, sem sagður er hafa verið Pólverji á sextugsaldri, sat á væng vélarinnar í dágóðan tíma áður en tókst að tala hann til og fá hann aftur inn í vélina. Hann var í kjölfarið handtekinn.

Á myndbandi sem annar farþegi tók upp af atvikinu sést hvar maðurinn sækir handfarangurinn áður en hann heldur út á vænginn. Þá heyrist fólk hlæja í bakgrunninum.

Farþegar um borð í vélinni hafa lýst atvikinu sem fjarstæðukenndu, en maðurinn tilkynnti viðstöddum að hann ætlaði út á vænginn áður en hann lét til skarar skríða. Þá sagðist farþegi hafa tekið eftir því að hann þjáðist astma og hefði átt erfitt með andadrátt.

Talsmaður Ryanair segir atvikið brot á öryggisreglum á flugvöllum og að spænsk yfirvöld muni taka á málinu í samræmi við það.

Maðurinn virðist hafa talið það betri kost að bíða úti …
Maðurinn virðist hafa talið það betri kost að bíða úti á væng vélarinnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert