Sigur Donalds Trumps í forsetakosningunum í Bandaríkjunum gerði hann ringlaðan, hann naut ekki innsetningarathafnarinnar og var hræddur við Hvíta húsið.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri bók fjölmiðlamannsins Michael Wolff sem ber heitið „Fire and Fury: Inside the Trump White House.“ Bókin kemur út í næstu viku og byggir hún á yfir 200 viðtölum.
Í bókinni er einnig að finna frásagnir um áhuga Ivönku Trump, dóttur Trumps, á forsetaembættinu og aðdáun forsetans á Rupert Murdoch og fjölmiðlaveldi hans.
Fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, Sarah Sanders, segir hins vegar að bókin sé „full af fölskum og villandi frásögnum.“
Blaðamaður BBC, Anthony Zurcher, hefur tekið saman tíu eldfimar afhjúpanir sem finna má í bókinni.
Stephen Bannon, fyrrverandi ráðgjafi Trumps, telur að fundi sem sonur Bandaríkjaforseta átti með hópi Rússa í Trump-turninum þegar kosningabaráttan í Banaríkjunum stóð sem hæst, megi líkja við landráð. Trump er nú þegar búinn að bregðast við þessari fullyrðingu Bannon og segir hann hafa misst vitið.
Frétt mbl.is: Trump segir Bannon hafa misst vitið
Wolff lýsir atburðarrásinni á kosninganótt þegar úrslitin urðu ljós. „Stuttu eftir klukkan átta á kosningakvöldinu, þegar hið óvænta gerðist - Trump gæti í raun og veru sigrað - sagði Don yngri sagði við vin sinn að faðir hans liti út eins og hann hefði séð draug. Melania grét - og ekki af gleði.“ Þessi lýsing á viðbrögðum Trump hefur ekki áður heyrst.
Í bókinni er sagt frá því að Trump hafi ekki notið innsetningarathafnarinnar í janúar. Hann lét það fara í taugarnar á sér að frægt fólk hunsaði boð í athöfnina og hann reifst við eiginkonu sína, sem virtist við það að bresta í grát.
Forsetafrúin hefur hins vegar neitað þessari frásöng.
Forsetahjónin dvelja í sitt hvoru herberginu í Hvíta húsinu og Trump óskaði eftir lás á herbergi sitt stuttu eftir að hann flutti inn, samkvæmt því sem fram kemur í bókinni.
Zurcher bendir á að viðskiptajöfurinn Trump sé vanur að lifa eftir eigin reglum og því hafi hann orðið fyrir hálfgerður áfalli þegar hann settist að í Hvíta húsinu, húsi sem Harry Truman, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, kallaði „Hið mikla hvíta fangelsi.“
Samkvæmt Wolff hafa bæði Ivanka og eiginmaður hennar, Jared Kushner, gert samning þess efnis að hún muni bjóða sig fram til embættis forseta. Undirbúningurinn sé nú þegar hafinn með þeim störfum sem þau hafa tekið að sér í Vesturálmunni.
Dóttir forsetans hefur gert grín að forsetanum fyrir hárgreiðsluna og hina meintu aðgerð í hársverði. Viðbrögð forsetans við gríninu koma ekki fram í bókinni.
Katie Walsh, staðgengill samskiptastjóra Hvíta hússins, spurði Kushner hverju Trump vildi áorka í forsetatíð sinni, stuttu eftir að hann tók við embætti. „Já… Við ættum líklega að eiga það samtal,“ svaraði Kushner.
Í bókinni má finna langa lýsingu á aðdáun forsetans á fjölmiðlarisanum Rupert Murdoch. „Hann er einn af þeim stórfenglegustu,“ er haft eftir Trump. Ekki er þó víst hvort aðdáunin sé gagnkvæmt.
Það er eiginlega alveg víst að aðdáunin er ekki gagnkvæm. Murdoch og Trump töluðu saman í síma vegna fundar forsetans með framkvæmdastjórum í Sílikondalnum. Murdoch var ekki sammála forsetanum um þær leiðir sem hann vildi fara í samskiptum sínum við framkvæmdastjóranna og fannst stjórnunaraðferðir hans of frjálslegar.
Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, vissi að það myndi koma í bakið á honum að taka við greiðslu frá rússneskri sjónvarpsstöð fyrir að halda ræðu. „Það verður aðeins vandamál ef hann vinnur,“ á hann að hafa sannfært sína nánustu samstarfsmenn um.