Typpahvíttun nýjasta æðið

Taílenskur maður undirgengst aðgerð sem miðar að því að lýsa …
Taílenskur maður undirgengst aðgerð sem miðar að því að lýsa húðlitin á typpinu. Aðgerðin er framkvæmd á Lelux-sjúkrahúsinu í Bangkok. AFP

Yfir hundrað karlmenn sækja í hverjum mánuði til læknastofu í Bangkok í Taílandi til að láta „hvítta“ á sér typpið. Fréttir af þessu nýjasta tískufyrirbæri hefur vakið mikla athygli í landinu. 

Lelux-sjúkrahúsið sérhæfir sig í að lýsa húðlit í landi þar sem margir eru mjög uppteknir af slíku. Fyrir hálfu ári hóf sjúkrahúsið að bjóða þjónustu til karlmanna sem vilja láta lýsa húðlit á kynfærum sínum.

„Það eru margir að spyrja um þetta þessa dagana. Við fáum um hundrað skjólstæðinga í hverjum mánuði, þrjá til fjóra á hverjum degi,“ segir Bunthita Wattanasiri, yfirmaður húðdeildar Lelux-sjúkrahússins.

Leysigeislar eru notaðir til að lýsa húðina. Sjúkrahúsið komst í kastljós fjölmiðla í vikunni er það birti myndir af manni sem var að undirgangast fegrunaraðgerð á kynfærasvæðinu. „Við förum mjög varlega því þetta er viðkvæmt svæði á líkamanum,“ segir Bunthita. Hún segir að flestir skjólstæðingarnir séu á aldrinum 22-55 ára.  

Þetta sama sjúkrahús vakti mikið umtal í fyrra fyrir að bjóða upp á aðgerðir á kynfærum kvenna. Í þeirri aðgerð er fita flutt af ákveðnum svæðum líkamans og í skapabarmana til að gera þá „þrýstnari“.

Nokkur skipti tekur að lýsa typpi og kosta fimm slík um 650 dollara, um 70 þúsund krónur.

„Ég held að þetta sé góður markaður svo að við bjóðum nú upp á líkamsmeðferðir fyrir bæði kvenkyns og karlkyns viðskiptavini okkar,“ segir Bunthita.

Aðgerðir sem miða að því að lýsa húðlit eru ekki nýjar af nálinni og í Taílandi eru þær nokkuð algengar. Þar eru slíkar aðgerðir auglýstar grimmt sem hefur verið harðlega gagnrýnt.

„Þessi þráhyggja snýst um það að fólk getur ekki verið stolt af sínum eigin húðlit,“ segir m.a. einn Facebook-notandi um málið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert