Ástralski leikarinn Craig McLachlan hefur verið sakaður um kynferðislega áreitni af hálfu þriggja kvenna en hann neitar sök.
Konurnar saka McLachlan, sem er 52 ára að aldri og þekktastur fyrir að hafa leikið í sjónvarpsþáttaröðinni Nágrannar, um áreitni þegar hann tók þátt í framleiðslu á Rocky Horror Show árið 2014.
McLachlan ákvað í dag að hætta leik í Rocky Horror Show sem er á sýningarferðalagi um Ástralíu. Hann segir að ekkert sé hæft í ásökunum kvennanna.
Konurnar sem allar eru leikkonur heita Christie Whelan Browne, Erika Heynatz og Angela Scundi. Þær segjast hafa ákveðið að stíga fram og segja sögu sína í þeirri von um að það verði til þess að forða öðrum konum undan því að lenda í klónum á honum. McLachlan fer með hlutverk Dr. Frank N. Furter í söngleiknum.
Á McLachlan meðal annars að hafa togað nærbrók Whelan Browne niður og kysst hana á rassinn. Hún segir að þrátt fyrir að fólk sjái hann sem hlýjan og góðan mann þá hafi hún kynnst annarri og skelfilegri hlið á honum.