Lykilvitni gegn Pell látið

Kardínálinn George Pell hefur verið ákærður í Ástralíu.
Kardínálinn George Pell hefur verið ákærður í Ástralíu. AFP

Maðurinn sem steig fram og sakaði George Pell, kardinála kaþólsku kirkjunnar, um barnaníð á meðan Pell starfaði í heimalandinu, Ástralíu, er látinn. Pell neitar því að hafa beitt Damian Dignan kynferðislegu ofbeldi en skýrslutaka í máli gegn Pell hefst í Melbourne.

George Pell er þriðji æðsti yfirmaður Páfagarðs og hefur ítrekað verið sakaður um að horfa fram hjá níðingum sem störfuðu innan kaþólsku kirkjunnar í Ástralíu. Hann er borinn þungum sökum í skýrslu sem opinber nefnd gaf út fyrir áramót um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum af hálfu starfsmanna kaþólsku kirkjunnar í Ástralíu.

Damian Dignan, sem bjó í bænum Ballarat í Victoria-ríki, hafði lengi glímt við veikindi, samkvæmt frétt Guardian. Hann var sá fyrsti sem greindi opinberlega frá ofbeldi af hálfu Pell í garð barna en síðan þá hafa fleiri stigið fram og greint frá.

Fyrrverandi eiginkona Dignan, Sharon Rixon, greinir frá andláti hans á Facebook. 

Fyrrverandi ríkissaksóknari í Victoria, Nicholas Papas, óttast að þetta geti haft áhrif á réttarhöldin sem fram undan eru.

Í viðtali við Guardian segir hann að það sé mjög slæmt þegar vitni deyr og það geti haft áhrif á alla málsmeðferðina. En Dignan sé ekki sá eini sem ætlaði að bera vitni gegn Pell.

Lögfræðingur Dignan, Ingrid Irwin, segir í samtali við Australian að hún sé mjög döpur yfir því að Dignan hafi ekki náð að bera vitni við réttarhöldin og það sé fáránlegt að hann hafi ekki fengið að upplifa að réttvísin nái loks fram að ganga gagnvart honum.

„Hann er einn þeirra hugrökkustu úr hópi Ballarat-drengjanna sem ég þekki. Hann var brotinn niður en tókst að finna styrk til þess að stiga fram og segja frá,“ segir Irwin.

Dignan greindi opinberlega frá kynferðislegu ofbeldi af hálfu George Pell í mars 2016 Pell mun koma frá Ítalíu til þess að vera viðstaddur vitnaleiðslurnar í Melbourne en hann er fjármálastjóri Páfagarðs og hefur alltaf neitað ásökunum um að hafa beitt börn kynferðislegu ofbeldi. 

Alls hafa um 50 vitni verið kölluð til þess að mæta fyrir rétt í Melbourne en málflutningur hefst 5. mars og er gert ráð fyrir að hann taki fjórar vikur. Að því loknu verður tekin ákvörðun um hvort nægjanlegan sannanir séu fyrir hendi til þess að höfða sakamál gegn Pell. 

Frétt Australian

Frétt Guardian 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert