Þýsk-rússneskur maður hefur viðurkennt að hafa gert sprengjuárás á rútu þýska knattspyrnuliðsins Borussia Dortmund í von um að græða á hlutabréfamarkaðnum.
„Ég sé innilega eftir gjörðum mínum,“ sagði maðurinn, sem er kallaður Sergei W., í yfirlýsingu sem var lesin upp í réttarsal í Dortmund.
Þar kemur fram að hann hafi ekki ætlað sér að meiða eða drepa neinn.
Þrenns konar sprengingar 11. apríl í fyrra urðu til þess að rúður rútunnar brotnuðu og spænski landsliðsmaðurinn Marc Bartra úlnliðsbrotnaði, auk þess sem lögreglumaður hlaut heyrnarskaða.
Fyrst var talið að um árás íslamskra öfgamanna hefði verið að ræða en tíu dögum eftir árásina var Sergei W. handtekinn.
Hann var ákærður fyrir 28 morðtilraunir, fyrir að hafa sprengt sprengjur og valdið alvarlegum líkamlegum skaða.
Dortmund var á leið í burtu frá hóteli sínu í rútunni til að spila leik í Meistaradeild Evrópu þegar árásin var gerð.
Liðið er það eina í Þýskalandi sem er skráð á hlutabréfamarkað. Árásarmaðurinn vonaðist til að græða allt að 500 þúsund evrur, eða tæpar 63 milljónir króna, ef hlutabréfin í Dortmund myndu falla eftir árásina.
Þess í stað er W. sagður hafa selt hlutabréf sín daginn eftir árásina og grætt aðeins 5.900 evrur, eða um 740 þúsund krónur.
Degi eftir árásina spilaði Dortmund við Mónakó en leiknum var frestað vegna árásarinnar. Mónakó vann leikinn.
Árásarmaðurinn á yfir höfði sér lífstíðardóm verði hann fundinn sekur. Samkvæmt þýskum lögum gæti hann fengið reynslulausn eftir fimmtán ár.