Sameiginlegt lið Kóreuríkjanna?

Horft yfir hluta af keppnissvæðinu í Pyeongchang.
Horft yfir hluta af keppnissvæðinu í Pyeongchang. AFP

Suður-Kórea hefur lagt það til að Kóreuríkin gangi saman inn á ólympíuleikvanginn á opnunarhátíð vetrarólympíuleikanna sem hefjast í Pyeongchang í Suður-Kóreu 9. febrúar.

Einnig hefur Suður-Kórea lagt til að Kóreuríkin sendi til leiks sameiginlegt lið í íshokkíi kvenna.

„Við höfum lagt ýmsar hugmyndir fram. Þar á meðal þá hugmynd að íshokkílið kvenna verði sameinað og íþróttamenn þjóðanna gangi saman inn á leikvanginn,“ segir Roh Tae-Kang, aðstoðarmaður íþróttamálaráðherra í Suður-Kóreu.

Norður- og Suður-Kórea hafa áður gengið saman inn á opnunarhátíð Ólympíuleika. Þau gerðu það fyrir leikana árið 200, 2004 og vetrarleikana árið 2006.

Norður-Kórea sniðgekk hins vegar Ólympíuleikana í Seoul í Suður-Kóreu árið 1988.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert