Flokkur Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, hefur náð samkomulagi við Jafnaðarmannaflokkinn um að hefja formlegar viðræður um myndun ríkisstjórnar. Fulltrúar flokkanna hafa setið á fundi í rúman sólarhring. Heimildir AFP herma að ef myndun ríkisstjórnar verður að veruleika þá verði til ríkisstjórn með mikinn meirihluta á þingi enda tveir stærstu flokkar landsins.
Viðræður flokkanna eru að frumkvæði Angelu Merkel en jafnaðarmenn höfðu áður lofað að vera í stjórnarandstöðu.
Kosið var í lok september í Þýskalandi en enn hefur ekki tekist að mynda samsteypustjórn. Þingkosningarnar skiluðu ekki niðurstöðu sem benti til þess að kjósendur vildu stjórn til hægri eða vinstri. Fráfarandi stjórn er samsteypustjórn flokkanna tveggja en í gegnum tíðina hafa þeir ekki starfað saman heldur myndað stjórnir sitt á hvað í samstarfi við minni flokka.