Mahmud Abbas, forseti Palestínu, sagði í dag að tilraun Donalds Trumps til að koma á friði milli Palestínumanna og Ísraelsmanna væri „löðrungur aldarinnar“. Hann lét þessi orð falla á fundi leiðtoga Palestínu í dag þar sem fjallað var um hvernig bregðast skyldi við því að Bandaríkin hefðu viðurkennt Jerúsalem sem höfuðborg Ísrael í byrjun desember síðastliðins. AFP-fréttastofan greinir frá.
Trump lýsti sér sem afburðasnjöllum samningamanni í kosningabaráttu sinni fyrir forsetakosningarnar og þegar hann ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í september sagðist hann vera að vinna að „alerfiðasta samningnum“, þ.e. friðarsamningi milli Ísraela og Palestínumanna til að binda enda á 70 ára erjur þeirra. Samningnum hefur verið lýst sem „samningi aldarinnar“.
„Við sögðum nei við Trump, við munum ekki samþykkja áætlanir þínar,“ sagði Abbas jafnframt. Sagði hann samninginn ekki „samning aldarinnar“ heldur „löðrung aldarinnar“ í ljósi þess sem hefur gerst og að hann yrði aldrei samþykktur.