Rannsókn hætt á nauðgunum á börnum

AFP

Franskur rannsóknardómari hefur lokið rannsókn á ásökunum um að franskir hermenn hafi nauðgað börnum í Mið-Afríkulýðveldinu þegar þeir sinntu friðargæslu þar. Niðurstaða dómarans er að engar sannanir séu fyrir því að þeir hafi beitt börn kynferðislegu ofbeldi.

Að sögn dómarans eru engar sannanir fyrir því að liðsmenn Operation Sangaris, hóps sem var settur saman til þess að sinna friðargæslu í landinu, hafi beitt börn kynferðislegu ofbeldi í búðum fyrir fólk sem hafði flúið ofbeldið á árunum 2013 og 2014.

Tekið er fram að ekki sé hægt að fullyrða að ofbeldið hafi ekki átt sér stað. Afar misvísandi upplýsingar hafi komið fram í máli barnanna sem áttu hlut að máli og því algjörlega ómögulegt að sakfella hermenn fyrir ofbeldi gagnvart börnum. 

Málið kom fyrst fram í dagsljósið þegar Guardian birti frétt um meint ofbeldi í apríl 2015 og setti þetta svartan blett á franska herinn. 

Í frétt Guardian kom fram að sex börn á aldrinum níu til þrettán ára hafi greint frá kynferðislegu ofbeldi þegar þau bjuggu í flóttamannabúðum við höfuðborgina, Bangui. Börnin fengu greitt fyrir kynlífið með mat frá hermönnunum. Frönsk yfirvöld sendu rannsóknarnefnd á staðinn, bæði 2015 og 2016, og yfirheyrði sex hermenn í tengslum við málið. Þeir neituðu allir sök.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert