Réttarhöld yfir franskri konu á sextugsaldri, sem oft er nefnd svarta ekkjan, hefjast í dag en hún er ákærð fyrir að hafa táldregið og eitrað fyrir efnuðum eldri mönnum á frönsku Riveríunni. Tveir þeirra létust í kjölfar eitrunar og á hún yfir höfði sér lífstíðarfangelsi verði hún fundin sek.
Patricia Dagorn er að ljúka afplánun á fimm ára fangelsisdómi fyrir að hafa táldregið og féflett mann á níræðisaldri í frönsku Ölpunum árið 2012.
Lík Michel Kneffel fannst á íbúðahóteli í Nice í júlí 2011 og féll grunur á Dagorn en hún bjó með honum á hótelinu á þessum tíma. Ekki var lögð fram ákæra í málinu á þeim tíma en árið eftir, þegar Dagorn var dæmd fyrir fyrra málið, fundust við húsleit persónulegar eigur tólf manna í hennar fórum auk róandi lyfja. Meðal muna voru skilríki þeirra, upplýsingar um bankareikninga og lyfjaskírteini.
Við frekari rannsókn beindist rannsóknin að andláti Francesco Filippone en lík hans fannst í baðkari íbúðar hans í Mouans-Sartoux, fyrir utan Cannes, í febrúar 2011.
Stuttu áður hafði Dagorn leyst út ávísun frá Filippone upp á 21 þúsund evrur, 2,6 milljónir króna, sem hún sagði að væri gjöf frá honum.
Lögregla telur að Dagorn hafi reynt að féfletta um tuttugu karla. Tveir þeirra bera vitni við réttarhöldin nú. Dagorn sem er menntaður lögfræðingur hefur einnig hlotið skilorðsbundinn dóm fyrr á lífsleiðinni fyrir fjársvik og sonur hennar segir að ákærurnar komi sér ekki á óvart. Hún hafi alltaf verið heltekin af hugmyndinni um skjótfengin gróða.