Veiti Evrópusambandið Bretlandi betri viðskiptakjör en sem felast í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) kunna norsk stjórnvöld að fara fram á það að núverandi tengsl Noregs við sambandið verði endurskoðað.
Þetta kemur fram á fréttavef breska dagblaðsins Guardian en Noregur er aðili að EES-samningnum líkt og Ísland og Liechtenstein auk allra ríkja Evrópusambandsins. Samningurinn er grundvöllur viðskiptatengsla ríkjanna þriggja við sambandið.
Haft er eftir háttsettum embættismanni Evrópusambandsins í fréttinni að stjórnvöld í Noregi fylgist náið með viðræðum Breta við sambandið með það fyrir augum að tryggja að Bretar fái ekki betri viðskiptakjör en felast í EES-samningnum.