Hjón í Kaliforníu voru handtekin á sunnudag og ákærð fyrir pyntingar eftir að þrettán börn þeirra á aldrinum tveggja til 29 ára fundust á heimilinu. Sum þeirra voru hlekkjuð við rúm á heimili sínu þegar lögregla kom á vettvang í bænum Perris, sem er 95 km suðaustur af Los Angeles.
Hjónin, David Allen Turpin, 57 ára og Louise Anna Turpin, 49 ára, eru jafnframt ákærð fyrir vanrækslu gagnvart börnum.
Að sögn lögreglu fékk hún vitneskju um heimilið eftir að 17 ára gamalli stúlku tókst að flýja að heiman á sunnudag og hringja í lögreglu úr farsíma sem hún fann. Hún var svo horuð að lögreglan taldi hana tíu ára gamla. Öll börnin eru vannærð en talið er að þau séu systkini og börn Turpin-hjónanna.
Þegar lögreglan kom á vettvang fann hún hluta barnanna hlekkjuð við rúm sín í myrkrinu og undarlegur fnykur var yfir öllu, að sögn lögreglu. Foreldrarnir gátu ekki gefið neina skýringu á því hvers vegna börnin sættu svo illri meðferð.
Í tilkynningu frá lögreglunni kemur fram að lögreglumenn töldu í fyrstu að um 12 börn væri að ræða en fengu áfall þegar þeir komust að því að sjö þeirra voru fullorðin, á aldrinum 18-29 ára, en vegna vannæringar og óþrifa þá virtust þau yngri en raunin er.
Að sögn lögreglustjórans í River-sýslu var það fyrsta verk lögreglunnar að gefa þeim að borða og drekka enda sögðust þau vera hungruð.
Samkvæmt frétt AFP er heimili fjölskyldunnar í miðju millistéttarhverfi. Þrír bílar voru við húsið og sendibíll með lituðum rúðum. Einn af bílunum þremur var með barnabílstól í aftursætinu.
Allt bendir til þess að börnin hafi fengið að fara út en á Facebook-síðu í nafni David-Louise Turpin eru myndir af hjónunum við ýmiskonar atburði. Til að mynda hjónavígslur og fleira á tímabilinu 2011-2016. Með þeim á myndunum er hluti barnanna.
Á síðustu myndunum sem voru settar inn á tímabilinu apríl-júlí 2016 sést Louise Turpin í brúðarkjól og eiginmaðurinn í jakkafötum. Elvis Presley eftirherma heldur á hljóðnema og hefur stillt sér upp ásamt hjónunum og börnunum. Minnir umhverfið mjög á brúðkaup í Las Vegas.
Níu stúlkur, allar með sítt dökkt ár, kæddar eins og sú áttunda, sem er smábarn, er klædd í bleikan kjól. Þrír drengir, með dökkt hár klippt með sömu skálaklippingunni og David Turpin, eru klæddir í jakkaföt og eru með rauð bindi.
Á mynd frá því í apríl 2016 sjást sömu börnin brosandi með foreldrum sínum klædd í gallabuxur og rauða stuttermaboli með áletrunum. Minnir uppstillingin mjög á Köttinn með höttinn eftir dr. Seuss. Hluti barnanna virðist horaður á þessum myndum en þau eru ekki vannærð á þessum tíma ef marka má myndirnar.
Mynd frá því í september 2015 sýnir Louise Turpin með barn í fanginu en barnið er klætt í bol með áletruninni „Mamma elskar mig“.
Nágranna fjölskyldunnar, Jamelia Adams, var mjög brugðið þegar lögreglan kom á vettvang.
„Þetta er skelfilega sorglegt. Það er hægt að láta börn frá sér ef þú vilt ekki börn og ef þú getur ekki hugsað um þau. Hér í þessu fallega hverfi, þar sem ný hús eru og nýir bílar í bakgarðinum eru börn frá 29 ára niður í tveggja ára sem var haldið föngnum, vannærð og skítug. Þetta er átakanlegt,“ segir Adams í viðtali við AFP.
Annar nágranni segist hafa séð unglinga, sennilega í fyrra, að slá lóðina. Jólaskreytingar hafi verið settar upp á heimili fjölskyldunnar og að ekki hafi hvarflað að neinum að eitthvað skrýtið væri í gangi.
Samkvæmt fréttum bandarískra fjölmiðla höfðu foreldrarnir lýst sig gjaldþrota. David Turpin er skráðum í gögnum ríkisins sem yfirmaður einkaskóla sem er skráður til húsa á heimili fjölskyldunnar.
Skólinn hóf starfsemi í mars 2011 en aðeins sex nemendur voru í skólanum. Los Angeles Times greinir frá því að parið hafi búið í Perris í þessu húsi frá 2010 en þau hafi komið frá Texas. Þau hafi verið lýst gjaldþrota í tvígang.
Þegar þau lýstu sig gjaldþrota árið 2011 sögðu hjónin að þau hefðu komist í skuldir við að stofna skólann. Skuldirnar námu að þeirra sögn 100-500 þúsundum dollara, segir í frétt New York Times. Þar kemur fram að þetta sama ár hafi David Turpin starfað sem verkfræðingur fyrir verktakafyrirtækið Northrop Grumman. Árslaun hans voru 140 þúsund dollarar en eiginkona hans var skráð heimavinnandi.