„Sérðu eftir því sem þú gerðir?“

Alexis Moore í dómsal í morgun.
Alexis Moore í dómsal í morgun. AFP

Fórnarlömb Larry Nass­ar, fyrr­ver­andi læknis banda­ríska fim­leika­landsliðsins, fluttu vitnisburð sinn í dómsal í morgun. Nassar var dæmdur í 60 ára fangelsi í desember fyrir vörslu barnakláms en hann gekkst við því að hafa misnotað fimleikastúlkur.

Dæmt verður í öðrum málum Nassar í mánuðinum en verði hann fundinn sekur gæti hann átt von á lífstíðarfangelsi.

Fyrrverandi fimleikakonan Jade Capua sagði að áreitnin af hendi Nassar hefði „breytt lífi hennar“ og að hann hefði rænt hana sakleysinu en meira en 130 konur hafa kært lækninn fyrrverandi og sakað hann um misnotkun. Þeirra á meðal eru Aly Ra­ism­an og McKayla Mar­oney, fyrr­ver­andi gull­verðlauna­haf­ar á Ólymp­íu­leik­um. Auk þess greindi Simonie Biles, gull­verðlauna­hafi á Ólymp­íu­leik­un­um, frá því í gær að Nassar hefði misnotað hana.

Önnur fyrrverandi fimleikakona, Alexis Moore, sagði að Nassar hefði svikið traust hennar, nýtt sér hversu ung hún var og misnotað hana ítrekað.

Larry Nassar laut höfði þegar fórnarlömb hans sögðu frá misnotkuninni.
Larry Nassar laut höfði þegar fórnarlömb hans sögðu frá misnotkuninni. AFP

„Sérðu eftir því sem þú gerðir?“ spurði Moore og beindi spurningu sinni að Nassar.

„Litlar stelpur verða ekki litlar að eilífu,“ sagði Kyle Stephens, eitt fórnarlamba Nassar. „Þær verða sterkar konur sem snúa aftur og eyðileggja líf þitt,“ sagði Stepehens og bætti við að misnotkunin hefði hafist þegar hún var sex ára.

Búist er við því að málflutningur í málinu taki nokkra daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert