Hinni 19 ára gömlu Evelyn Hernandez var nauðgað af liðsmanni glæpagengis í heimalandi hennar; El Salvador. Hún varð ólétt eftir nauðgunina og var dæmd í 30 ára fangelsi en stuðningsmenn hennar segja að hún hafi fætt andvana barn. Andstæðingar segja að Hernandez hafi drepið barnið.
„Ég hélt að ég væri sú fyrsta hér til að vera dæmd fyrir hafa fætt andvana barn eða misst fóstur. Við erum hins vegar fleiri en 17,“ sagði Hernandez í viðtali sem tekið var við hana í fangelsinu.
El Salvador er eitt fimm landa þar sem fóstureyðing er undir öllum kringumstæðum ólögleg. Fjöldi stúlkna hefur verið dæmdur til fangelsisvistar af sömu ástæðu og Hernandez. Hernandez fæddi barnið inni á salerni í apríl í fyrra eftir að hafa fundið fyrir miklum bak- og magaverkjum.
Læknar gátu ekki fullyrt um hvort fóstrið hefði dáið fyrir eða eftir að Hernandez fæddi það. Kvenkyns dómari í málinu samþykkti röksemdafærslu saksóknara sem var á þá leið að Hernandez hefði ekki sótt sér læknisþjónustu á meðgöngunni vegna þess að hún vildi ekki eiga barnið. Hún hefði síðan hent því í klósettið vegna þess að hún vildi drepa það.
„Konur eru kærðar fyrir fóstureyðingu á meðan þær hafa í raun og veru misst fóstur,“ segir lögmaður Hernandez og segir mál skjólstæðingsins síns skólabókardæmi um þetta.
„Ég fann eitthvað losna frá mér en ég vissi aldrei hvort barnið hefði fæðst lifandi eða andvana. Ég heyrði það aldrei gráta en get ekki verið viss. Þau segja að ég hafi fætt það annars staðar og hafi síðan losað mig við það. Ég gerði það ekki,“ sagði Hernandez en hún vissi ekki af óléttunni.
„Ég er saklaus,“ bætti hún við.
Þingmaðurinn Ricardo Parker segir að í stjórnarskrá landsins komi fram að mannvera verði til við getnað. „Ég sé því ekki muninn á því að drepa barn eða drepa barn í móðurkviði,“ sagði Parker.
Hann sagði að Hernandez hefði myrt barnið sitt og dró það stórlega í efa að hún hefði ekki vitað um óléttuna. „Vissi hún ekki af óléttunni? Í alvöru?“ sagði Parker og svaraði spurningu neitandi um hvort hann hefði orðið óléttur. „Ég er karlmaður.“
Hann sagði að viðurlög við morði væru allt að 50 ára fangelsisvist og í tilviki Hernandez hefði hún átt að hljóta þyngri refsingu.