Trump: Hefur ekki skipt um skoðun á múrnum

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist ekki hafa skipt um skoðun varðandi …
Donald Trump Bandaríkjaforseti segist ekki hafa skipt um skoðun varðandi múr á landamærum Mexíkó. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti harðneitar að hafa skipt um skoðun varðandi múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Þetta tilkynnti Trump eftir að John Kelly, starfsmannastjóri Hvíta hússins, sagði í viðtali við Fox sjónvarpsstöðina að skoðanir forsetans varðandi landamæramúrinn hefðu þróast frá því í kosningaherferð hans fyrir forsetakosningarnar.

„Það er gjörólíkt að vera í framboði og að stjórna,“ sagði Kelly í viðtalinu. Áður höfðu bandarískir fjölmiðlar greint frá því að Kelly hafi sagt við þingmenn Demókrata að Trump hefði ekki haft „allar upplýsingar í höndum“ er hann kom fyrst upp með áætlunina um múrinn.

BBC segir forsetann hafa ítrekað á Twitter nokkrum tímum síðar að Mexíkó muni enn „með beinum eða óbeinum hætti“ greiða fyrir múrinn.

Innflytjendamál hafa verið mikið hitamál á Bandaríkjaþingi undanfarnar vikur og stendur Hvíta húsið nú frammi fyrir þeim möguleika að fjárlög fáist ekki samþykkt. Þingmenn Demókrataflokksins vilja tryggja að þeir innflytjendur sem komu ólöglega til landsins sem börn, svo nefndir Dreamers, geti verið áfram í landinu. Trump hefur gefið í skyn að hann sé tilbúin að samþykkja þetta, fái áætlanir hans um landamæraöryggi brautargengi. Landamæramúrinn er sagður innifalinn í þeirri áætlun.

Talið er að kostnaður við að reisa múrinn nemi um 20 milljörðum dollara, en fyrri áætlanir forsetans töldu kostnaðinn vera á bilinu 10-12 milljarðar.

Sagði Kelly stjórnina gera ráð fyrir að reisa múr sem næði yfir 1.300 af 3.100 km landamæralínunni. Sjálfur sagði Trump í fyrra að múrinn myndi ná yfir lengri leið og að náttúrulegar hindranir myndu sjá um restina.

Í kosningaherferð sinni fullyrti Trump einnig að Mexíkó myndi greiða fyrir múrinn eins og hann leggur sig. Kelly sagði hins vegar stjórnvöld nú vera að skoða aðrar leiðir til að fjármagna múrinn, m.a. með viðbótargjöldum við vegabréfsáritanir eða breytingum á Nafta samkomulaginu.

Trump ítrekaði hins vegar á Twitter að hann búist enn við að Mexíkó borgi fyrir múrinn, en endurgreiði hann mögulega yfir lengri tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka