Yfirvöld í Pakistan rannsaka nú hvort að lögreglumenn í landinu hafi drepið, án dóms og laga, mann sem ranglega var sakaður um að hafa myrt barn.
Segir BBC pakistanska lögreglumenn hafa skotið manninn Mudasir, sem sakaður var í febrúar í fyrra um að hafa myrt hina 5 ára gömlu Iman Fatimu. Fullyrti lögregla að hann hafi verið drepinn er hann var að reyna að flýja.
Newsnight, fréttaskýringaþáttur BBC, hefur hins vegar nú svipt hulunni af ásökunum um að hinn raunverulegi morðingi Iman gangi enn laus. DNA prófanir benda til þess að Iman hafi verið drepin af sama manni og grunaður er um að hafa drepið annað barn nú í janúar. Hinni sex ára gömlu Zainab Ansari, sem var nauðgað og hún myrt, en morðið á henni hefur vakið mikla reiði og mótmæli víðsvegar um Pakistan.
Lögreglumenn sem vinna að rannsókninni á morðinu á Zainab fundu leifar af DNA-efni sem þeir reyndust þær sömu og í árásum sem gerðar voru á sjö ungar stúlkur í borginni. Fjórar stúlknanna, þar á meðal Iman, voru myrtar.
Þar til nú hefur lögregla og fjölskylda Imans talið að búið hafi verið að leysa málið, en nú telur fjölskyldan Mudasir hafa verið saklausan og að hinn raunverulegi morðingi sé á flótta.
Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt lögreglu í Pakistan fyrir að standa fyrir svo nefndum „lögreglu viðureignum“ – drápum á meintum sakborningum án dóms og laga, sem síðar eru sögð til komin vegna þess að viðkomandi hafi streist á móti við handtöku.
Segja sérfræðingar lögregluna oft beita þessari aðferð vegna þess að erfitt sé að fá sakfellingu fyrir dómstólum í landinu.
„Mér finnst ég hafa misst allt. Þeir myrtu son minn,“ sagði móðir Mudasirs Jamila Bibi. Fjölskyldan hafi þurft að flytjast á brott skömmu síðar því enginn í hverfinu vildi tala við þau. Hún segir Mudasir hafa verið hnepptan í varðhald sama kvöld og Iman Fatima var rænt og hún myrt. Þau hafi síðan þurft að fara með lögreglu til að sækja lík hans á sjúkrahúsið.