Tugir þúsunda hafa hópast út á götur í borgum Bandaríkjanna til að mótmæla Donald Trump, forseta landsins. Í dag er ár síðan Trump tók við sem forseti en svipuð mótmæli og nú fara fram voru haldin daginn eftir að hann hóf forsetatíð sína.
Mótmælin kallast kvennagöngur (e. Women's March) en þeir sem taka þátt í þeim líta á kjör Trumps í embætti sem mikið bakslag í kvennabaráttu.
Ekki er búist við jafnfjölmennum mótmælum og í fyrra en þá er talið að meira en þrjár milljónir manna hafi mótmælt Trump.
Helsta markmið mótmælenda í ár er að hvetja hinn almenna borgara til að skrá sig á kjörskrá. Það verði síðan til að auka þátttöku kvenna í þingkosningum í haust.
„Við tókum þátt í mótmælunum í fyrra og okkur finnst að það þurfi að gera meira,“ sagði hin 14 ára gamla Tanaquil Eltson í viðtali við AFP-fréttastofuna. Hún kom til mótmælanna með móður sinni.
„Ég hef upplifað marga áratugi af kynferðislegri áreitni og ástandið er að skána en það er ekki næstum því eins gott og það á að vera,“ sagði móðirin, Vitessa, en margir mótmælenda lýstu yfir áhyggjum af stöðu innflytjenda og kvenna.