Sherman-hjónin voru myrt

Barry Sherman.
Barry Sherman. AFP

Einkaspæjarar, sem börn milljarðamæringanna Barry og Honey Sherman réðu til starfa, hafa komist að þeirri niðurstöðu að hjónin hafi verið myrt en þau fundust látin á heimili sínu í Toronto í Kanada 15. desember. Toronto Star greinir frá þessu í dag.

Hjónin voru mjög vel efnuð en Barry Sherman var stjórnarformaður stærsta samheitalyfjafyrirtækis Kanada, Apotex, og voru eignir þeirra metnar á rúmlega þrjá milljarða Bandaríkjadala, sem svarar til 308 milljarða króna.

Morðdeild lögreglunnar í Toronto tók yfir rannsóknina á andláti þeirra og hefur komið fram að banamein þeirra hafi verið kyrking en ekki var talað um morð í tilkynningu deildarinnar. 

Lík Shermans-hjónanna fundust hangandi fram af handriði við sundlaug í kjallara hússins. Hafa verið uppi kenningar um að Barry, 75 ára, hafi myrt konu sína, Honey, 70 ára, og síðan tekið eigið líf. Börn þeirra, sem eru fjögur talsins, hafa hins vegar sagt að það geti ekki verið og fengu sérfræðinga með sér til að rannsaka andlát þeirra. Farið var fram á aðra krufningu og fundu réttarmeinafræðingar og einkaspæjararnir, sem áður voru yfirmenn í morðdeild lögreglunnar í Toronto, merki um að hjónin hefðu verið bundin á höndum, annaðhvort með snæri eða plastlykkju. 

Þegar líkin fundust voru hendur þeirra hins vegar ekki bundnar og hvorki reipi né annað sem hægt var að binda þau með nálægt. Jafnframt kom í ljós að þau voru ekki undir áhrifum neinna lyfa þegar þau létust. Þau hefðu verið kyrkt með leðurbeltum sem fundust um háls þeirra. Heimildir herma að allt bendi til þess að leigumorðingjar hafi myrt hjónin. 

Sherman stofnaði Apotex árið 1974 og starfa um 11 þúsund manns hjá fyrirtækinu en það selur 300 tegundir samheitalyfja í 120 löndum.

Barry og Honey Sherman fundust látin á heimili sínu.
Barry og Honey Sherman fundust látin á heimili sínu. Skjáskot af vef BBC
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert