Pakistanska lögreglan handtók 24 ára gamlan karlmann fyrir að hafa nauðgað og myrt sex ára gamla stúlku, Zainab Fatima Ameen, sem fannst látin á ruslahaug fyrr í janúar. Maðurinn er einnig grunaður um að vera raðmorðingi og að hafa myrt að minnsta kosti sex af 12 stúlkubörnum sem hafa verið myrt með sambærilegum hætti á síðustu tveimur árum.
Zainab var 12. barnið sem fannst myrt eftir að hafa verið nauðgað og pyntað í borginni Kasur í Pakistan á síðustu tveimur árum í um tveggja kílómetra radíus. Eftir lát Zainab brutust út hávær mótmæli undir merkjum #JusticeForZainab þar sem aðgerðaleysi lögreglu og stjórnmálamanna var harðlega gagnrýnt. Í mótmælunum var meðal annars kveikt í húsi stjórnmálamanns.
„Morðingi Zainab hefur verið handtekinn. Hann heitir Imran og er 24 ára gamall og býr í Kasur. Hann er líka raðmorðingi,“ sagði Shahbaz Sharif, ráðherra í Punjab-héraði í Kasur, á blaðamannafundi í dag. Imran bjó í næstu götu við Zainab.
DNA-sýni voru tekin úr 1.150 manns og passaði sýni úr manninum 100% við sönnunargögn á vettvangi glæpsins. Jafnframt passaði sýnið við sex af 12 stúlkubörnum sem var nauðgað, þau pyntuð og myrt.
Imram mun einnig hafa játað í yfirheyrslu og liggur hún fyrir á myndbandsupptöku.