Morðingi barnsins handtekinn

Shahbaz Sharif til hægri greinir frá handtöku meints morðingja á …
Shahbaz Sharif til hægri greinir frá handtöku meints morðingja á blaðamannafundi í dag. Við hlið hans til vinstri er faðir stúlkunnar sem var nauðgað og hún myrt. AFP

Pakistanska lögreglan handtók 24 ára gamlan karlmann fyrir að hafa nauðgað og myrt sex ára gamla stúlku, Zainab Fatima Ameen, sem fannst látin á ruslahaug fyrr í janúar. Maðurinn er einnig grunaður um að vera raðmorðingi og að hafa myrt að minnsta kosti sex af 12 stúlkubörnum sem hafa verið myrt með sambærilegum hætti á síðustu tveimur árum.  

Zainab var 12. barnið sem fannst myrt eftir að hafa verið nauðgað og pyntað í borginni Kasur í Pakistan á síðustu tveimur árum í um tveggja kílómetra radíus. Eftir lát Zainab brutust út hávær mótmæli undir merkjum #JusticeForZainab þar sem aðgerðaleysi lögreglu og stjórnmálamanna var harðlega gagnrýnt. Í mótmælunum var meðal annars kveikt í húsi stjórnmálamanns.   

Minningarathöfn um Zainab var haldin víða um borgina.
Minningarathöfn um Zainab var haldin víða um borgina. AFP

 

„Morðingi Zainab hefur verið handtekinn. Hann heitir Imran og er 24 ára gamall og býr í Kasur. Hann er líka raðmorðingi,“ sagði Shahbaz Sharif, ráðherra í Punjab-héraði í Kasur, á blaðamannafundi í dag. Imran bjó í næstu götu við Zainab.

DNA-sýni voru tekin úr 1.150 manns og passaði sýni úr manninum 100% við sönnunargögn á vettvangi glæpsins. Jafnframt passaði sýnið við sex af 12 stúlkubörnum sem var nauðgað, þau pyntuð og myrt.  

Imram mun einnig hafa játað í yfirheyrslu og liggur hún fyrir á myndbandsupptöku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka