Kristilegir Demókratar, flokkur Angelu Merkel Þýskalandskanslara, og Jafnaðarmannaflokkurinn hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður sín á milli í dag, fjórum mánuðum eftir að þingkosningar fóru fram í landinu.
Reuters-fréttastofan segir Merkel munu funda í dag með Horst Seehofer, leiðtoga systurflokks kristilegra demókrata í Bæjaralandi, og Martin Schulz, formanni Jafnaðarmannaflokksins, til að hefja viðræðurnar, en þær þykja besta von Merkel eigi hún að sitja sem kanslari fjórða kjörtímabilið.
Sérfræðingar í þýskum stjórnmálum eru sammála um að viðræðurnar séu líklegar til árangurs þó að jafnaðarmenn setji þrjár kröfur sem þeir segjast ekki ætla að hvika frá.
Það gekk heldur ekki þrautalaust að fá flokkana að samningaborðinu og telja margir flokksfélagar Jafnaðarmannaflokksins að endurnýjað samstarf flokkanna sé í besta falli sársaukafull fórn til að viðhalda efnahagslegum og pólitískum stöðugleika í Evrópu.
Samningamenn vonast til að viðræðurnar gangi hratt og vel fyrir sig og að þeim verði lokið fyrir 8. febrúar og að ný stjórn nái þar með að taka við völdum fyrir páska.