Hjónin myrt og morðið skipulagt

Barry Sherman var einn af auðugustu mönnum Kanada.
Barry Sherman var einn af auðugustu mönnum Kanada. AFP

Kanadíska lögreglan segir að hjónin Barry og Honey Sherman, sem fundust látin á heimili sínu í Toronto í síðasta mánuði, hafi verið myrt og að morðið hafi verið skipulagt. Lögreglan segir að enginn hafi verið ákærður í tengslum við málið og hefur ekki viljað tjá sig um hvort einhver liggi undir grun.

Barry Sherman var einn ríkasti maður Kanada. Líkin fundust á heimili hjónanna 15. desember. hann var 75 ára og hún sjötug. 

Hjónin voru þekkt fyrir að vinna að mannúðar- og góðgerðarmálum. Dauði þeirra kom mörgum í opna skjöldu. 

Nokkrum dögum eftir líkfundinn var fjallað um þá tilgátu, og vísað í heimildarmenn innan lögreglunnar, að lögreglan væri með það til skoðunar hvort annað þeirra hefði framið morð og síðan tekið eigið lífi í kjölfarið. 

Susan Gomes, rannsóknarlögreglumaður í Toronto, segist ekki vita hvaðan sú tilgáta kom. Hún bætti við að þetta væri einfaldlega ein af mörgum mögulegum ástæðum sem væri til skoðunar. 

Nýjustu upplýsingar um framvindu málsins báruast sama dag og lyfjafyrirtækið Apotex, sem Barry Sherman stofnaði, greindi frá því að forstjórinn hefði sagt af sér. 

Gomes segir að hjónin hefðu síðast sést á lífi að kvöldi 13. desember. Fjölskylda þeirra heyrði ekkert í þeim eftir það. Þá segir hún að rannsóknin hafi leitt í ljós að það hafi ekki verið brotist inn í húsið þeirra. 

Líkin fundust við sundlaug á heimilinu. Þau voru fullklædd en búið að hengja þau með beltum og voru þau í hálfsitjandi stellingum við laugina að sögn lögreglu. 

Gomes segir að lögreglan hafi komist að þeirri niðurstöðu að þau hafi verið myrt og telur að morðið hafi verið skipulagt.

Lögreglan segist hafa rætt við fjölmarga einstaklinga í tengslum við rannsóknina sem hefur nú staðið yfir í sex vikur. Lögreglan hefur hingað til lítið vilja gefa upp um gang mála, aðeins staðfest að hjónin hefðu látist af völdum kyrkingar með einhverskonar efni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert