Akilov formlega ákærður á morgun

Af vettvangi árásarinnar við Drottningargötu í Stokkhólmi.
Af vettvangi árásarinnar við Drottningargötu í Stokkhólmi. AFP

Rakhmat Akilov sem játaði að hafa framið hryðjuverk í Stokkhólmi í apríl í fyrra verður væntanlega ákærður á morgun. Akilov játaði að hafa ekið vörubíl inn í mannþröng á Drottningargötu með þeim afleiðingum að fimm létust og fjölmargir særðust.

Akilov, sem er 39 ára gamall Úsbeki, játaði strax í vor á sig verknaðinn en ekki hefur verið upplýst nákvæmlega um málsatvik. Það verður væntanlega gert á morgun þegar formleg ákæra verður gefin út.

Fylgigögn með ákærunni eru fjölmörg eða um níu þúsund blaðsíður, þar sem vitnisburður þeirra sem urðu vitni að hryðjuverkinu sem og vitnisburður Akilov verður birtur ásamt gögnum frá réttarmeinafræðingum.

Magnus Ranstorp, sem vinnur við rannsóknir á hryðjuverkum, segir í samtali við TT fréttastofuna í dag að væntanlega muni þar koma fram hvað varð til þess að Akilov ákvað að fremja hryðjuverk. Eins með hverjum hann starfaði.

Áður en Akilov framdi árásina hafði hann látið sig hverfa þar sem honum hafði verið synjað um hæli í Svíþjóð. Ekkert hefur verið upplýst um hvernig hann komst í tæri við öfgamenn og hvort það hafi verið boðskapur Ríkis íslams sem heillaði hann.

Akilov er einn grunaður um árásina en um 150 manns hafa borið vitni við rannsóknina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert