Ramzan Kadyrov, forseti Tsjetsjeníu, segir í samtali við blaðamann BBC að engin mannréttindabrot séu framin í rússneska sjálfstjórnarhéraðinu. Síðustu ár hefur verið greint frá því að samkynhneigðir karlmenn hafi flúið Tsjetsjeníu vegna ofsókna.
„Þetta er uppfinning erlendra manna sem fá greiddar nokkrar rúblur fyrir,“ sagði Kadyrov við blaðamann BBC þar sem hann opnaði nýja skíðalyftu í Kákasusfjöllum nýlega.
„Svokallaðir mannréttindasinnar búa til tóma vitleysu fyrir peninga,“ bætti hann við.
Ummæli Kadyrov stangast á við frásagnir samkynhneigðra karla sem flúðu frá Tsjetsjeníu. Einn þeirra greindi frá því að honum hefði verið haldið föngnum í kjallara í viku. Þar hefði hann verið laminn og pyntaður. Maðurinn sagði að þetta væri refsing vegna þess að hann er samkynhneygður.
Kadyrov og hans menn hafa ekki eingöngu ráðist gegn samkynhneigðum heldur hafa þeir einnig sótt hart að aðgerðasinnum sem reyna að aðstoða mennina sem verða fyrir ofsóknum.
Einn þeirra, Oyub Titiyev, á yfir höfði sér allt að 10 ára fangelsi eftir að marijuana fannst í bíl hans. Titiyev skrifaði Vladimir Pútín Rússlandsforseta bréf þar sem hann fullyrti að efninu hefði verið komið fyrir hjá honum.
„Við getum búist við hverju sem er,“ sagði Orlov við BBC. „Það er mjög hættulegt að starfa í Tsjetsjeníu.
„Látum þau vinna annars staðar,“ sagði Kadyrov um mannréttindahópa. „Allir þeir sem verja hópana og hommana sem sagðir eru vera í landinu okkar eru útlendingar,“ bætti hann við.
Kadyrov fullyrti að handtakan á Titiyev væri eðlileg þar sem hann væri „bara eins og hver annar eiturlyfjafíkill.“ Blaðamanni er síðan vísað burt og sagt að hann hafi spurt um nóg þegar hann reynir að spyrja um pyntingar.
Umfjöllun BBC.