Fyrsta sem þú finnur er lyktin; stækjan frá kömrum og þúsundum sem ekki hafa komist í bað í langan tíma, segir blaðamaður Washington Post. Við erum að tala um Moria-flóttamannabúðirnar á grísku eyjunni Lesbos. Búðum sem mesta lagi er ætlað að hýsa 1.800 manns en þar eru nú um sjö þúsund flóttamenn.
Í nýlegri grein á vef Open Democracy kemur fram að þar á meðal eru börn sem eru ein á flótta, þungaðar konur, fatlaðir, særðir, aldraðir, fólk sem glímir við alvarleg andleg veikindi, fólk sem hefur orðið fyrir ýmiskonar áföllum. Af þeim sem eru í búðunum sofa um fjögur þúsund í sumartjöldum eða á beru gólfinu á sama tíma og hitinn fer oft niður fyrir frostmark.
Blaðamaður og ljósmyndari Washington Post voru nýverið á Lesbos og heimsóttu meðal annars Moria-flóttamannabúðirnar sem eru þær stærstu á grísku eyjunum í Eyjahafi.
Mun færri flóttamenn koma til Lesbos nú en þegar flóttamannastraumurinn var sem mestur 2015 og 2016 eða allt þar til Evrópusambandið gerði samning við Tyrki um að endursenda flóttafólk þangað. Samningur sem hefur þýtt að flóttafólkið kemst ekki lengur á meginlandið heldur situr fast á eyjunum í Eyjahafi þar sem allar flóttamannabúðir eru yfirfullar og lítil sem engin þjónusta er í boði.
„Það eru engin rök fyrir því að fimm þúsund manns í flóttamannabúðum í Evrópu hafi ekki aðgang að einföldustu þörfum, skýli, heilbrigðisþjónustu, salernum og heitu vatni,“ segir Aria Danika, sem er verkefnisstjóri mannúðarsamtakanna Læknar án landamæra á Lesbos. „Staðreyndin er sú að miðað við hvað þeir þurfa að þola segir mér að þetta sé hluti af stærra samhengi.“
Samhengi sem hún segir að hægt sé að lýsa með einu orði; fælingu. Skilaboð sem send eru til þeirra sem leita eftir hæli af hálfu Evrópusambandsins og þeirra sem reka flóttamannabúðir í Grikklandi: „Ekki koma hingað. Annars verðið þið föst hér á þessari hryllilegu eyju næstu tvö árin,“ segir Eva Cossé, sem starfar fyrir mannúðarvaktina, Human Rights Watch. „Mikilvægt er að fólk verði flutt á meginlandið,“ segir Cossé en ekki sé vilji fyrir því.
Ýmis smærri og stærri mannúðarsamtök koma að hjálparstarfi á Lesbos og á fréttavef Metro er rætt við fólk sem starfar fyrir ein slík, One Happy Family. Þar er reynt að gefa fólki í búðunum að borða, aðstoða það við að komast á netið svo það geti haft uppi á ástvinum sem einnig eru á flótta, og stytta þeim stundir með ýmiskonar afþreyingu.
Einn þeirra bendir blaðamanni Metro á, þegar hann sýnir myndir úr Moria-búðunum, að það megi líkja þessu við að ef gestir á Glostonbury tónlistarhátíðinni yrði gert að dvelja þar mánuðum saman. Til að mynda hvernig salernisaðstaðan myndi líta út eftir einhvern tíma. Fleiri flóttamenn hafa komið til Lesbos að undanförnu og ljóst að miðað við núverandi aðstæður þá er ekki möguleiki á að þeir lifi allir veturinn af. Fleiri þúsund manns búi í óupphituðum tjöldum og jafnvel tjöldum sem ekki er mögulegt að hita upp enda ætluð fyrir sumarhita á Eyjahafi. Enda er fólk þegar farið að deyja í vetur þrátt fyrir að kaldasta tímanum sé hvergi nærri lokið.
Á vef Irish Times eru lesendur beðnir um að ímynda sér hvernig aðbúnaður flóttafólksins er, í búðum helvítis. Tjaldið hans Mohammed al-Musa er svo lítið að fæturnir, sem eru berir og með fjölmörgum blöðrum á, standa út úr tjaldinu á hverri nóttu. Berskjaldaðir fyrir kulda, rottum og skordýrum.
Áætlanir ESB um að senda fólk með hraði aftur til Tyrklands hafa hins vegar ekki gengið upp og eru aðeins nokkrir tugir sendir í hverjum mánuði. Á sama tíma og hælisleitendur hafa áfrýjað synjunum um hæli hafa mannréttindahópar reynt að hnekkja lögmæti þess að synja fólk í bráðri neyð um vernd.
Qamar Ahmad, 22 ára gamall eðlisfræðinemi frá Pakistan, kom til Lesbos skömmu eftir að samningur ESB og Tyrklands tók gildi í mars 2016. Hann er enn á eyjunni, fastur í flóttamannabúðum með skjöl sem öll eru á grísku þannig að hann skilur ekkert hvað kemur þar fram. Hann veit ekkert hvenær eitthvað gerist í hans málum.
Washington Post segir að skoðanir evrópskra stjórnmálamanna eins og forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orban, hafi orðið ofan á í evrópskri umræðu. Manns sem lýsi flóttafólki eins og múslímskum innrásarher.
Hann hafi jafnvel verið fenginn til þess að taka á ársfundi pólitískra bandamanna Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, fyrr í mánuðum. Þar hafi hann talað mjög gegn því sem hann kallar að hleypa inn milljónum múslíma.
Þrátt fyrir að grískir og evrópskir embættismenn viti vel hver staðan er í Moria þá sé lítið að gert annað en að menn saka hver annan um ástandið.
Dimitris Avramopoulos, sem fer með málefni flótta- og farandfólks hjá framkvæmdastjórn ESB, segir að ESB hafi lagt yfir einn milljarð evra til gríska ríkisins vegna flóttamannamála og ábyrgðin á aðstæðum í Moria sé í höndum grískra yfirvalda.
Ioannis Mouzalas, sem fer með málefni flóttafólks í grísku ríkisstjórninni, segir aftur á móti að stór hluti fjárins hafi runnið einkarekinna stofnana og sveitarfélaga til þess að taka á móti og bæta aðbúnað flóttafólks.
Á sama tíma og íbúar Lesbos, um 86 þúsund talsins, hafa sýnt mikið umburðarlyndi undanfarin ár þá virðist þolinmæði þeirra á þrotum. Ekki sé við flóttafólkið að sakast, segir talsmaður stjórnvalda á Lesbos, heldur grísk yfirvöld og ESB.
Spyros Galinos, ríkisstjóri á Lesbos, hefur gagnrýnt stöðuna ásamt starfssystkinum sínum á öðrum eyjum. Hann segir að yfirvöld í Aþenu séu að breyta eyjunum í fangelsi með því að hleypa fólki ekki upp á meginlandið. Stjórnvöld brugðust við mótmælum eyjaskeggja með því að flytja nokkur þúsund flóttamenn af eyjunum í desember upp á meginlandið. En á hverjum degi bætast nýir flóttamenn í hópinn og ástandið fer stöðugt versandi í Moria á sama tíma og það kólnar í veðri.
Líkt og blaðamaður mbl.is upplifði síðasta vor þá er fjöldinn slíkur í Moria að allt í kring hefur fólk hreiðrað um sig í tjöldum. Jafnvel með því að breiða álteppi yfir sig á milli ólífutrjánna. En trjánum fer óðum fækkandi því flóttafólkið reynir að halda á sér hita með því að kveikja bál úr greinunum.
Marios Andriotios, talsmaður yfirvalda á Lesbos, segir að þetta eigi ekki að koma neinum á óvart. Það komi vetur á hverju ári. „Með því að leyfa ástandinu að versna dag frá degi til þess eins að koma í veg fyrir að nýir komi er engin lausn. „Þetta er ómannúðlegt,“ bætir hann við.
Enda þurfi þetta ekki að vera svona líkt og búðir sem mannúðarsamtök hafa sett á laggirnar sem og yfirvöld á eyjunni þar sem reynt er að bjóða fólki upp á mannsæmandi aðstæður. En flestir þeirra sem koma til Lesbos eru sendir í Moria-búðirnar, stað sem er líkt við helvíti á jörðu af þeim sem þekkja til.
Auk AFP, danska ríkisútvarpsins og Politiken