Sendir sérfræðing í kynferðisbrotum til Chile

Frans páfi í heimsókn sinni til Chile. Hann ætlar að …
Frans páfi í heimsókn sinni til Chile. Hann ætlar að senda helsta sérfræðing Vatikansins í kynferðisbrotum til Chile til að rannsaka ásakanir um að biskup þar í landi hafi haldið hlífskyldi yfir presti sem misnotaði börn kynferðislega. AFP

Frans páfi ætlar að senda helsta sérfræðing Vatikansins í kynferðisbrotum til Chile til að rannsaka ásakanir um að biskup þar í landi hafi haldið hlífskyldi yfir presti sem misnotaði börn kynferðislega.

Páfinn hitti fórnarlömb prestsins er hann var nýlega í heimsókn í Chile og ítrekaði í kjölfarið að hann tryði því að biskupinn Juan Barros væri saklaus og sakaði fólk um rógburð í hans garð.

Baðst páfi síðar afsökunar á þessum orðum sínum.

Gagnrýnendur hafa krafist þess að vígsla biskupsins verði tekin til endurskoðunar og að gripið verði til frekari aðgerða.

Á að hafa verið viðstaddur áreitnina

Í yfirlýsingu sem Páfagarður sendi frá sér í gær kom fram að nýjar upplýsingar hefðu komið fram í málinu og erkibiskup Möltu og rannsakandinn Charles Scicluna yrði sendur til Chile til að „hlýða á þá sem vilja leggja fram þær upplýsingar sem þeir hafa“.

Scicluna sótti fjölda kynferðisbrota fyrir Vatíkanið á árunum 2002-2012.

Barros er ekki ásakaður sjálfur um áreitni, en á að hafa verið viðstaddur þegar annar prestur, Karadima, áreitti unga drengi. Ásakanirnar ná til níunda áratugar síðustu aldar og er Karadima sakaður um að hafa áreitt nokkur ungmenni í Santiago.

Vatíkanið hefur þegar úrskurðað Karadima sekan og var hann dæmdur til lífstíðar yfirbótar og bænahalds, en mál hans fór ekki fyrir glæpadómstól í Chile.

Páfi hefur sætt gagnrýni frá því að Barros var vígður biskup Osorno, í suðurhluta Chile 2015, þrátt fyrir mikla andstöðu. Mætti páfi líka töluverðum mótmælum er hann kom til Chile nú síðast og var auk þess gangrýndur harðlega fyrir að verja biskupinn.

„Þann dag sem ég sé sannanir gegn Barros biskupi, þá mun ég tjá mig. Það eru engar sannanir gegn honum. Þetta er allt rógburður. Er það ljóst,“ sagði páfi.

Sean O'Malley kardínáli Boston og einn af helstu ráðgjöfum páfa, sakaði páfa um að valda miklum sársauka með orðum sínum. Þá  sögðu nokkur fórnarlamba Karadima orð páfa móðgandi og að óásættanlegt væri að krefjast áþreifanlegra sönnunargagna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert