Kynþáttahatur er sagt vera ástæða skotárásar sem karlmaður framdi í ítölsku borginni Macerata í dag með þeim afleiðingum að sex særðust. Frá þessu greinir innanríkisráðherra Ítalíu, Marco Minniti.
Ítalskir fjölmiðlar hafa greint frá nafni árásarmannsins, hann heitir Luca Traini og er 28 ára. Traini skaut á sex afríska innflytjendur út úr bíl sínum, svörtum Alfa Romeo, á ferð. Hann var með ítalskan fána vafinn um hálsinn og heilsaði að nasistasið þegar hann var handtekinn.
Frétt mbl.is: Með ítalska fánann um hálsinn
Ráðherrann segir hegðun Traini vera hluta af hægri öfgastefnu með augljósa skírskotun í fasisma og nasisma. Þingkosningar fara fram á Ítalíu 4. mars og hafa innflytjendamál verið áberandi í kosningabaráttunni hingað til. BBC hefur grient frá því að Traini hafi boðið sig fram í fyrra í kosningum fyrir stjórnmálaflokk sem þekktur er fyrir harða innflytjendastefnu sína.