Talið er að fjórir hafi særst í skotárás á vegfarendur í bænum Macerata á Ítalíu í dag. Í frétt BBC segir að árásir hafi verið gerðar á nokkrum stöðum í bænum og eru íbúar hvattir til að halda sig innandyra. Í að minnsta kosti einu tilvikinu skaut maður af byssu út úr bíl á ferð. Bíllinn er sagður vera af gerðinni Alfa Romeo 147 og vera svartur að lit.
Í færslu bæjarstjóraskrifstofunnar á Twitter segir að talið sé að árásirnar séu enn í gangi.
Í frétt BBC segir að einhverjir fréttamiðlar á Ítalíu segi að tala særðra sé hærri en það hefur ekki fengist staðfest.
Fram kemur í fréttinni að skothvellir hafi heyrst í tveimur bæjarhlutum sem hafa verið vettvangur rannsóknar á morði á átján ára gamalli stúlku sem fannst látin á miðvikudag. Karlmaður frá Nígeríu er í haldi grunaður um morðið. Fjölmiðlar á Ítalíu tengja þessa tvo atburði saman í fréttum sínum í dag.
Uppfært kl. 12.21: Lögreglan hefur handtekið mann sem grunaður er um árásirnar. Hún segir að hinir særðu séu allir útlendingar.