„Þögn mín gerir mig ekki að glæpamanni, hún er vörnin mín.“ Þetta sagði Salah Abdeslam en réttarhöld yfir honum hófust í morgun í Brussel. Hann er ákærður fyrir ólöglegan vopnaburð og morðtilraun í Belgíu. Hans bíða einnig réttarhöld í Frakklandi fyrir aðild að hryðjuverkaárás í París sem kostaði 130 manns lífið.
Abdeslam er ákærður fyrir að hafa reynt að drepa lögregluþjóna sem tóku þátt í aðgerðum þegar hann var handtekinn í Brussel í mars 2016. Þrír lögreglumenn særðust í skotbardaga og félagi Abdeslam var skotinn til bana.
Abdeslam var handtekinn ásamt Túnisbúa, Sofiane Ayari, 24 ára, og eiga þeir yfir höfði sér allt að 40 ára fangelsisdóm verði þeir fundnir sekir.
Abdeslam hefur neitað að ræða við rannsakendur síðan hann var handtekinn. Hann krafðist þess að vera viðstaddur réttarhöldin í Belgíu en gert er ráð fyrir því að þau taki fjóra daga.
Ekki er talið líklegt að réttað verði yfir Abdeslam í Frakklandi fyrr en árið 2020 en talið er að hann hafi leikið stórt hlutverk í hryðjuverkaárásunum í París í nóvember árið 2015.
„Ég er ekki hræddur við þig og er heldur ekki hræddur við bandamenn þína. Ég treysti Allah og hef engu við það að bæta,“ sagði Abdeslam við réttarhöldin í morgun.