Fleiri börnum hætta búin af zika-veirunni

Zika-veiran smitast með biti moskítóflugna.
Zika-veiran smitast með biti moskítóflugna. AFP

Börn sem sýkjast af zika-veirunni í móðurkviði kunna að hafa orðið fyrir alvarlegum heilaskemmdum, jafnvel þó að þau fæðist ekki með óvenjusmátt höfuð, svonefndan smáheila. Eru þetta niðurstöður nýlegrar rannsóknar sem gerð var á öpum.

Í greininni, sem birt er í fagtímaritinu Nature Medicine, segir mögulegt að börn sem ekki hafi verið greind fái því ekki þá læknisaðstoð sem þau þurfi.

„Núverandi mælikvarði, að nota höfuðstærð til að greina heilaskaða vegna zika-veirunnar, nær ekki að greina minni heilaskaða sem þó getur leitt til verulegra námsörðugleika og andlegra veikinda síðar á lífsleiðinni,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Kristinu Waldorf, einum höfunda skýrslunnar. „Við erum rétt að greina toppinn á ísjakanum.“

Waldorf og hópur vísindamanna rannsökuðu heilastarfsemi í fóstrum fimm makaka-apa, en búið var að sýkja apynjuna af zika-veirunni.

Aðeins eitt fóstranna bar líkamleg merki zika-veirunnar, en segulómrannsóknir leiddu í ljós að heilar fjögurra af öpunum þroskuðust ekki rétt. Sá hluti heilans þar sem nýjar heilafrumur eru framleiddar varð sérstaklega illa úti.

„Fínlegar skemmdir sem veiran veldur á fósturskeiði eða í bernsku kunna að vera lítt sýnilegar árum saman, en geta þó hægt á taugaskilvitlegum þroska sem veldur námsörðugleikum og eykur hættuna á  taugafræðilegum sjúkdómum á borð við geðklofa eða vitglöpum fyrir aldur fram,“ sagði Lakshmi Rajagopal, einn meðhöfundanna.

„Þessar niðurstöður auka enn frekar mikilvægi þess að finna virkt bóluefni sem kemur í veg fyrir zika-veirusýkingu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert