Stjórnarandstaðan á danska þinginu er full efasemda um tillögu Jafnaðarmannaflokksins um að flóttafólk fái ekki lengur að sækja um alþjóðlega vernd fyrirvaralaust á landamærum Danmerkur eða í miðstöðvum fyrir hælisleitendur.
Jafnaðarmannaflokkurinn er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á danska þinginu. Jafnaðarmenn leggja til að ef fólk vill sækja um hæli í Danmörku þurfi það að fara í danska móttökustöð í ótilgreindu ríki í Norður-Afríku og bíða þar á meðan mál þeirra er tekið fyrir.
Johanne Schmidt-Nielsen, þingmaður Enhedslisten sem er bandalag vinstri grænna (Rauð-græna bandalagið), segir að aðlögun flóttafólks sé eðlilega ekki vandamálalaus. Með tillögunni um að láta það starf í hendur einhvers ríkis í Norður-Afríku í stað þess að takast á við það sjálf beri vott um skort á samkennd með öðrum.
Þrátt fyrir að jafnaðarmenn telji að tillagan sé í samræmi við mannúðarsjónarmið og mannréttindi þá hefur Schmidt-Nielsen verulegar efasemdir þar um.
„Ég held að jafnaðarmenn séu einir um að telja að þetta sé í samræmi við mannréttindi,“ segir hún.
Pia Olsen Dyhr, formaður Sósíalíska þjóðarflokksins, segist sjá ákveðna jákvæða hluti við tillögu jafnaðarmanna. Svo sem með því að veita flóttamönnum betri og hentugri aðstoð, með aukinni þróunarhjálp og fjölgun kvótaflóttamanna.
Morten Østergaard, formaður Radikale Venstre, segir að þótt hann hafi ekkert á móti því að veita flóttafólki skjól í Norður-Afríku sé tillaga jafnaðarmanna gjörsamlega óraunhæf.
„Við munum aldrei finna Afríkuríki sem er reiðubúið til þess að taka þetta verkefni að sér fyrir okkur,“ segir Østergaard.
Hann hvetur til betra og þróaðra samstarfs við nágrannaríkin innan Evrópusambandsins og þar af leiðandi betri möguleika á samninga við ríki í Norður-Afríku. Hann segir að það sé ekkert annað en sandkastali að ímynda sér að ný ríkisstjórn gæti gert þetta án stuðnings annarra ríkja.
Umhverfisflokkurinn Alternativet segir hugmyndir Jafnaðarmannaflokksins bæði óraunsæjar og ómannúðlegar.
„Þú ert að leggja til að byrðarnar verði færðar til ríkis í Norður-Afríku. Skilja vandamálið eftir fyrir nágrannaríkin. Og með því að segja nei við fólk á flótta sem kemur hingað,“ segir talsmaður flokksins í innflytjendamálum, Josephine Fock. Flokkurinn tekur hins vegar vel í hugmyndir um að leggja aukið fé í þróunaraðstoð.
Marcus Knuth, talsmaður Venstre í innflytjendamálum, segir að það yrði draumi líkast ef ekki þyrfti annað en að smella fingrum og koma slíku kerfi á. En því miður sé ástandið mjög ótryggt víða í N-Afríku og væri ekki einu sinni hægt að byggja þar búðir.
„Og ríki þar sem ástandið er mun stöðugra myndu aldrei í sínum villtustu draumum hugsa um að játa þessu tilboði,“ bætir Knuth við.
Martin Henriksen, talsmaður Þjóðarflokksins í málefnum innflytjenda, segir að jafnaðarmenn eigi skilið hópknús ef þeir standi fast á þessari tillögu. Ef þessi tillaga er lögð fram á réttan hátt geti þetta gengið upp og standist mannúðarsjónarmið.
<strong><a href="https://politiken.dk/indland/politik/art6327312/Mette-Frederiksen-mangler-r%C3%B8d-st%C3%B8tte-til-granskning-af-ydelser" target="_blank">Ein af greinum Politiken um málið</a></strong><a href="https://www.dr.dk/nyheder/politik/stoejberg-undrer-sig-over-mette-frederiksen-hvorfor-bakker-i-ikke-op-om-vores" target="_blank"><strong>Danska ríkisútvarpið</strong></a>
Meðal hugmynda jafnaðarmanna er fækka útlendingum sem koma frá öðrum ríkjum en Vesturlöndum til Danmerkur. „Við viljum setja þak á þann fjölda útlendinga sem ekki eru vestrænir sem fá að koma til Danmerkur,“ segir leiðtogi Jafnaðarmannaflokks Danmerkur, Mette Frederiksen, í 44 blaðsíðna langri skýrslu þar sem sjónum er einkum beint að hælisleitendum frá Afríku.
<div id="article-body">„Við viljum gera umbætur á hælisumsóknakerfi okkar, meðal annars með því að setja upp móttökumiðstöðvar utan Evrópu og í framtíðinni verði ómögulegt fyrir flóttamenn að fá hæli í Danmörku fyrir utan þá kvóta sem settir eru af Sameinuðu þjóðunum,“ sagði Fredriksen þegar hún kynnti skýrsluna í gær.
Þrátt fyrir að umsækjandi um alþjóðlega vernd fái hana þá fær hann ekki að koma til Danmerkur heldur þarf hann að bíða í móttökulandinu þangað til máli hans lýkur undir stjórn Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR). Danmörk mun greiða fyrir kostnaðinn sem af þessu hlýtur.
</div>