Tæplega þrjátíu Sýrlendingar létust í loftárásum stjórnarhersins í Sýrlandi í gær. Árásirnar voru gerðar á svæði sem er undir stjórn uppreisnarmanna ekki langt frá höfuðborg landsins, Damaskus.
Myndir sem fylgja fréttinni sýna börn og fullorðin fórnarlömb árásanna í gær og ekki fyrir viðkvæma.
Í sjö ár hafa íbúar Sýrlands búið við stríð þar sem fleiri hundruð þúsund manns hafa verið drepnir og milljónir hrakist að heiman.
Undanfarið hafa ítrekað komið fram ásakanir um að stjórnarherinn beiti efnavopnum á þeim svæðum þar sem uppreisnarmenn ráða ríkjum. Jafnframt hafi aukinn kraftur verið settur í loftárásir á íbúðarhverfum í Austur-Ghouta, skammt frá Damaskus.
Bandaríkin segja óyggjandi sannanir fyrir því að klórgasi hafi verið beitt í nokkrum árásum undanfarnar vikur, þar á meðal í Austur-Ghouta.
Í gær voru gerðir tugir loftárása á Austur-Ghouta, samkvæmt upplýsingum frá Syrian Observatory for Human Rights. 29 almennir borgarar létust og tugir særðust segir framkvæmdastjóri bresku mannúðarsamtakanna, Rami Abdel Rahman.
Tíu, þar af tvö börn, létust á markaði í bænum Beit Sawa í gær og níu, þar af tvö börn, létust í Arbin.
Eins hefur stjórnarherinn verið sakaður um að hafa beitt eitruðu gasi í Idlib, héraði sem er undir stjórn uppreisnarmanna. Ellefu manns þurftu að leita sér læknisaðstoðar þar eftir loftárásir stjórnarhersins á Saraqeb á sunnudag.
Mohammad Ghaleb Tannari, læknir í nágrannabæ, segir að þau hafi tekið á móti 11 manns sem voru með einkenni eins og fólk fær eftir að hafa andað að sér eiturgufum klórgass. Það er öndunarerfiðleikar og hósti.
Fulltrúar Bandaríkjanna og Rússa tókust hart á í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um málið í gær. Hvetja Bandaríkin til þess að ráðið fordæmi klórgasárásir í Sýrlandi. Að lokum fór svo að engin ályktun var rituð og gefin út af hálfu ráðsins.
Sendiherra Bandaríkjanna hjá öryggisráðinu, Nikki Haley, gagnrýnir Rússa fyrir að hafa komið í veg fyrir fordæmingu á því að sýrlensk börn kafni eftir að hafa andað að sér klórgasi. En sendiherra Rússa, Vassily Nebenzia, svaraði henni með því að eini tilgangurinn með fordæmingunni sé að saka stjórn Sýrlands um að beita eiturvopnum án þess að það hafi verið sannað.
Sameinuðu þjóðirnar hafa ítrekað sýnt fram á að Sýrlandsstjórn hafi beitt eiturvopnum á þegna landsins á þeim sjö árum sem stríðið hefur geisað.
Af þeim rúmlega 340 þúsund Sýrlendingum sem hafa látist í átökunum eru þúsundir barna. Í janúar voru 59 sýrlensk börn fórnarlömb stríðsátaka í landinu. Fréttamaður AFP greindi frá því í gær að hann hafi séð ung börn liggjandi látin á sjúkrahúsi í Arbin. Í nágrannabænum Zamalka, sem einnig er nánast gjöreyðilagður bær í Austur-Ghouta, mátti sjá fólk ganga með blóðug lík barna sinna. Börn sem höfðu látist í sprengjuregni af hálfu stjórnarhersins.