Hetjur leika sjálfa sig í mynd Eastwood

Vinirnir þrír á heimsfrumsýningu The 15.17 to Paris í Kaliforníu.
Vinirnir þrír á heimsfrumsýningu The 15.17 to Paris í Kaliforníu. AFP

Fyrir tveimur og hálfu ári síðan yfirbuguðu þrír ungir Bandaríkjamenn hryðjuverkamann sem var vopnaður AK-47 hríðskotabyssu og hafði á sér 300 skothylki í franskri lest. Núna eru þeir orðnir kvikmyndastjörnur eftir að hafa leikið sjálfa sig í nýrri kvikmynd Clints Eastwood, The 15:17 from Paris.

Einn mannanna þriggja, Spencer Stone, segir að hann hafi einu sinni er hann lék í myndinni átt afturhvarf til atburðarins í lestinni 21. ágúst 2015, eða þegar hann kraup niður að manni sem lá blæðandi á gólfinu og setti fingurinn á hálsinn á honum til að koma í veg fyrir að blóðið flæddi úr honum.

„Við eigum sömu samtölin, við erum um borð í lestinni og erum í sömu fötunum. Þeir endurgerðu meiðslin okkar, þannig að við vorum allir útataðir í blóði aftur," sagði Stone í viðtali við The Guardian. „Ég man vel eftir þessu ótrúlega magni af blóði.“

Maðurinn sem lá á blóðinu er ekki leikari, frekar en Bandaríkjamennirnir þrír, heldur Mark Moogalian sem var staddur í lestinni þegar árásarmaðurinn var yfirbugaður.

Frá vinstri til hægri:Alek Skarlatos, Spencer Stone, Clint Eastwood og …
Frá vinstri til hægri:Alek Skarlatos, Spencer Stone, Clint Eastwood og Anthony Sadler á heimsfrumsýningu The 15:17 to Paris í Kaliforníu. AFP

Gleymdi að hann væri að leika 

Stone segist í samtali við The Guardian hafa gleymt því að hann væri að leika í kvikmynd þegar umrætt atriði var tekið upp. „Ég gleymdi því algjörlega að það væri nokkur annar þarna.“

Hinir tveir mennirnir sem yfirbuguðu manninn heita Anthony Sadler og Alek Skarlatos og eru á þrítugsaldri líkt og Stone. Vinirnir þrír voru saman á ferðalagi um Evrópu þegar atvikið átti sér stað í lestarferð frá Amsterdam til Parísar.

Bretinn Chris Norman og Moogalina áttu einnig þátt í því að stöðva hryðjuverkamanninn.

Francois Hollande, þáverandi forseti Frakklands, sæmdi Bandaríkjamennina þrjá og Norman orðu heiðursfylkingarinnar, æðstu orðu Frakklands fyrir hugrekki þeirra.

Spencer Stone ásamt Mark Moogalian og eiginkonu hans í París …
Spencer Stone ásamt Mark Moogalian og eiginkonu hans í París í síðasta mánuði. AFP

Gátu ekki hafnað samstarfi við Eastwood

Um leik sinn í kvikmyndinni segir Skarlatos: „Við nutum þess virkilega mikið og þegar við fengum svona gott tækifæri til að starfa með herra Eastwood gátum við ekki annað en slegið til. Ég veit ekki hvort þetta kemur vel út eða ekki.“

Vinirnir þrír hittu Eastwood þegar hann afhenti þeim verðlaun árið 2016. Baksviðs spurðu þeir í gríni hvort hann hefði ekki áhuga á að leikstýra kvikmynd sem væri byggð á sögu þeirra. Bók þeirra um atburðinn var væntanleg í verslanir og bað leikstjórinn þá um að senda sér eintak. Það gerðu þeir og skömmu síðar fengu þeir símtal frá Eastwood sem sagðist ætla að gera myndina.

Þremur vikum fyrir tökur voru þeir svo óvænt spurðir hvort þeir vildu leika sjálfa sig og endurlifa atburðinn þar með. Þeir báðu um sólarhringsfrest til að hugsa sig um og slógu svo til.

Spencer Stone fær orðu vegna afreka sinna í lestinni.
Spencer Stone fær orðu vegna afreka sinna í lestinni. AFP

„Óraunveruleg" upplifun 

Þeir spurðu Eastwood hvort þeir þyrftu ekki að fara í leiklistartíma en hann neitaði því og sagðist frekar vilja láta líta út fyrir að þeir væru ekki að leika. Þeir ættu að vera þeir sjálfir og hegða sér nákvæmlega eins og þeir gerðu í lestinni.

Skarlatos segir að upplifunin hafi verið óraunveruleg. „Við vorum í sömu fötunum, gerðum það sama. Það voru bara liðin tvö ár og við mundum nánast allt sem gerðist. Við notuðum mikið af því sem við sögðum á þeim tíma.“

Jane Hartley, sendiherra Bandaríkjanna í Frakklandi ásamt þeim Spencer Stone, …
Jane Hartley, sendiherra Bandaríkjanna í Frakklandi ásamt þeim Spencer Stone, Anthony Sadler og Alek Skarlatos, skömmu eftir atburðinn. AFP

Spurður hvort þeir hefðu viljað gera eitthvað öðruvísi í lestinni þegar þeir hugsa til baka  svarar Stone því neitandi og segir að allt hafi farið eins vel og hægt var.

„Jafnvel þegar við hugleiðum möguleikann á því hvað hefði gerst ef við hefðum hlaupið í burtu, jafnvel þótt við hefðum komist burt lifandi, þá gætum við ekki lifað með sjálfum okkur vitandi það að við höfðum tækifæri til að gera eitthvað en kusum að gera það ekki. Ég gæti ekki notið lífsins ef við hefðum tekið þá ákvörðun. Ég hefði frekar viljað deyja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert