Stjórnarsáttmála landað í Þýskalandi

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP

Tveir af stærstu stjórnmálaflokkum Þýskalands, Kristilegir demókratar og Jafnaðarmannaflokkurinn, hafa náð samkomulagi um stjórnarsáttmála flokkanna. Viðræður hafa staðið yfir á undanförnum vikum en rúmir fjórir mánuðir eru síðan þingkosningar fóru fram í landinu. Fyrri tilraunir til myndunar ríkisstjórnir misheppnuðust.

Stjórnarsáttmálinn verður í framhaldinu lagður fyrir 460 þúsund flokksmenn Jafnaðarmannaflokksins til samþykktar eða synjunar en gert er ráð fyrir að niðurstaðan liggi fyrir eftir um þrjár vikur samkvæmt frétt viðskiptablaðsins Financial Times. Verði sáttmálinn samþykktur verður Angela Merkel, leiðtogi Kristilegra demókrata, kanslari fjórða kjörtímabilið í röð. Ný ríkisstjórn gæti þá tekið við í kringum páskana.

Fram kemur í fréttinni að frá síðari heimsstyrjöldinni hafi ekki tekið jafnlangan tíma að mynda ríkisstjórn í Þýskalandi. Fráfarandi ríkisstjórn er einnig ríkisstjórn flokkanna tveggja en vegna slæmrar útkomu úr kosningunum í lok september höfðu jafnaðarmenn lýst því yfir að þeir ætluðu að vera í stjórnarandstöðu næsta kjörtímabilið. Hins vegar ákváðu þeir að hefja viðræður við Merkel í þeim tilgangi að binda endi á stjórnarkreppuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert