Yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) telur að tekist hafi að koma böndum á mannskæðar farsóttir á Madagaskar í þetta sinn, en varar við að næsti faraldur komi til með að verða skæðari. Pestin gæti jafnvel breiðst til nágrannalanda verði ekki gripið til aðgerða. Þetta sagði Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður stofnunarinnar, við fréttamenn í Genf í dag. Hann sagði málið mjög alvarlegt. AFP-fréttastofan greinir frá.
Faraldur af svarta dauða og lungnabólgu hefur herjað á íbúa Madagaskar síðan í ágúst á síðasta ári og yfir 200 hafa látist. Fyrrnefnda pestin smitast með flóabitum, en sýktar rottur bera flærnar í mannabyggð. Sú síðarnefnda smitast á milli manna með lofti og snertingu. Faraldur af svarta dauða hefur komið upp á Madagaskar næstum árlega frá 1980, og þá gjarnan í kjölfar skógarelda, en þá flýja rotturnar heimkynni sín.
Faraldurinn hefur yfirleitt varað frá því september og fram í apríl og að meðaltali smitast um 300 til 600 manns í hvert skipti. Faraldurinn í ár hagaði sér hins vegar öðruvísi og var skæðari en áður.
Tilfellin voru fyrr á ferðinni en áður og í stað þess að vera bundin við sveitir þá veiktist líka fólk í þorpum og bæjum. 2.000 tilfelli af svarta dauða hafa verið skráð frá því faraldurinn hófst í ágúst, sem er mun meira en síðustu ár, og skráð dauðsföll eru 207.
Ghebreyesus sagði mikilvægt að gripið yrði til aðgerða og það ætti bæði við um WHO og yfirvöld á Madagaskar. Ef ekkert yrði að gert gæti faraldurinn magnast upp og jafnvel breiðst út til nágrannalanda. Þá benti hann á að flærnar sem bera bakteríurnar í fólk væru í mörgum tilfellum orðnar ónæmar fyrir skordýraeitri og öðrum efnum sem notuð hafa verið til að fæla þær frá.