Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur fyrirskipað tafarlausa rannsókn á Oxfam-góðgerðarsamtökunum, eftir að greint var var frá því í gær að hjálparstarfsmenn á vegum samtakanna hefðu keypt þjónustu barnungra vændiskvenna þegar þeir voru við hjálparstörf á Haíti eftir stóran jarðskjálfa sem reið þar yfir árið 2010. Talið er að Oxfam hafi reynt að þagga málið niður, en talsmaður samtakanna tekur fyrir það.
„Það var mikið áfall að heyra af óásættanlegri hegðun háttsettra hjálparstarfsmanna á Haíti,“ sagði talsmaður May í samtali við AFP-fréttastofuna. „Við viljum að Oxfam afhendi nefnd sem hefur umsjón með góðgerðarsamtökum öll gögn um málið og að ítarleg rannsókn á þessum ásökunum fari tafarlaust fram.“
Oxfam hafði áður látið gera rannsókn á málinu innan samtakanna og fengu nokkrir starfsmenn að fjúka í kjölfarið. Ekki var hins vegar gripið til neinna lagalegra refsiaðgerða, en talsmaður Oxfam sagði ekki hægt að fullyrða að vændiskonurnar hefðu verið undir lögaldri.